Innlent

María Sigrún: Skemmtilegasta verkefni sem ég hef unnið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
María Sigrún, ásamt Guðmundi, Reyni Pétri og Hanný Maríu. Mynd/ valli.
María Sigrún, ásamt Guðmundi, Reyni Pétri og Hanný Maríu. Mynd/ valli.
Göngugarpurinn Reynir Pétur Ingvarsson, María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður og Guðmundur Berkvist kvikmyndatökumaður forsýndu nýja mynd sína í Bíó Paradís í gær. Myndin er frásögn af Reyni Pétri á Sólheimum í Grímsnesi og frægri gönguferð hans hringinn í kringum landið fyrir 25 árum síðan. Ekki stendur til að sýna myndina aftur í kvikmyndahúsi en hún verður sýnd í Sjónvarpinu.

„Þetta er eiginlega skemmtilegasta verkefni sem ég hef unnið," segir María Sigrún í samtali við Vísi. Reynir Pétur sé einstakur maður og skemmtilegur í viðkynningu. María minnir á að gönguferð Reynis Péturs hafi vakið gríðarlega athygli á sínum tíma og hafi orðið til þess að breyta ímynd og vekja athygli á málstað fatlaðs fólks.

„Ég man svo vel eftir þessu," segir María sem var sjálf sex ára þegar að Reynir Pétur vann afrek sitt. Þótt Reynir Pétur sé núna orðinn 62 ára gamall segir María að hann sé ennþá mjög ern. Hann búi líka yfir hæfileikum og þekkingu sem flesta aðra skorti. Til dæmis kunni hann flest latnesk heiti á plöntum og svo kunni hann líka mjög mikið fyrir sér í stærðfræði. María segir líka að Reynir Pétur sé mjög ötull starfsmaður í gróðurhúsinu þar sem hann vinnur og að hann vinni oft á við tvo eða þrjá.

María segir að frumsýningin í gær hafi verið fjölsótt. Um 60 manns hafi komið frá Sólheimum í rútu. Þar á meðal var Hanný María, unnusta Reynis Péturs, en þau hafa verið saman í 26 ár.

Myndin verður sýnd á sunnudag klukkan 20.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×