Erlent

Forsvarsmaður Wikileaks eftirlýstur fyrir nauðgun í Svíþjóð

Julian Assange.
Julian Assange.

Forsvarsmaður uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, Julian Assange, er eftirlýstur fyrir nauðgun í Svíþjóð samkvæmt erlendum fjölmiðlum.

Það var sænska dagblaðið Expressen sem greindi fyrst frá málinu en í viðtali á fréttastöðinni Sky News er rætt við Karin Rosander, sem er almannatengslafulltrúi embættis saksóknara í Svíþjóð. Hann staðfestir að Julian Assange sé eftirlýstur fyrir nauðgun.

Hann vildi þó ekki gefa upp hvort búið væri að gefa út alþjóðlega handtökutilskipun vegna málsins.

Julian svarar ásökunum á Twitter-síðu sinni. Þar segir hann að Expressen sé götublað og að það muni koma í ljós að málið sé uppspuni frá rótum og til þess fallið að afvegaleiða umræðuna.

Wikileaks hefur verið í heimsfréttunum undanfarið vegna 90 þúsund trúnaðarskjala sem láku til síðunnar. Um er að ræða skjöl sem innihalda trúnaðarupplýsingar bandaríska hersins um veru sína í Afganistan og Írak.

Julian hefur meðal annars starfað hér á landi en RUV aðstoðaði hann við útgáfu myndbands sem sýndi árás bandarískra hermanna á saklausa borgara í Írak. Þá starfar fréttamaðurinn Kristinn Hrafnsson með Julian og hefur aðstoðað hann við útgáfu leyniskjalanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×