Innlent

Vilja viðskiptabann á Ísland

Frá Hvalfirði.
Frá Hvalfirði.
Alþjóðasamtök um vernd hvala- og höfrunga hvetja bandarísk stjórnvöld til að koma á viðskiptabanni við Íslendinga vegna hvalveiða. Á þessu ári fluttu Íslendingar út 880 tonn af hvalkjöti til Noregs, Færeyja og Japan.

Vegna mikils útflutnings á hvalkjöti á árinu 2010 óskuðu Alþjóðasamtök um vernd hvala og höfrunga eftir því við bandaríska viðskiptaráðuneytið að koma á viðskiptaþvingunum og banni gagnvart Íslandi vegna „stigmagnandi óhlýðni við alþjóðasattmála um bann við hvalveiðum," eins og það er orðað.

Slíkar kvartanir hafa áður borist en bandarísk yfirvöld hafa aldrei séð ástæðu til að verða við þeim. Íslendingar fluttu út 880 tonn af hvalkjöti á árinu 2010 til Japan Noregs og Færeyja, en hvalveiðar hófust hér að nýju í vísindaskyni árið 2006.

Hvalveiðar Íslendinga eru í samræmi við endurskoðaða nýtingaráætlun sem liggur fyrir hjá vísindanefnd Alþjóða hvalveiðráðsins, en ráðið sjálft hefur ekki samþykkt hana. Í þessu samhengi fullyrðir Landssamband íslenskra útvegsmanna að veiðar Íslendinga séu löglegar.

Hins vegar hafa samtök í ferðaþjónustu barist gegn þeim hér á landi undir þeim formerkjum að hvalveiðarnar skaði orðstír landsins og veiðarnar bitni á tekjuöflun fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þá hafa evrópskir embættismenn haldið því fram að hvalveiðarnar verði mikil hindrun í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þar sem óinnleiddar tilskipanir sambandsins banni veiðar sjárvarspendýra.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, hefur sagt að málið snúist um „sjálfstæði og tilfinningar, þ.e þjóðernishyggju."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×