Innlent

Gert án samþykkis borgaryfirvalda

Vegriðið á Hringbraut verður um einn og hálfur kílómetri að lengd. fréttablaðið/valli
Vegriðið á Hringbraut verður um einn og hálfur kílómetri að lengd. fréttablaðið/valli

„Það hefur ekki verið full sátt á milli aðila um hvernig skuli staðið að þessu,“ segir Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni. „Borgin vildi kanna betur hvort það væri hægt að finna aðrar aðgerðir til að draga úr raunhraða.“

Jónas segir Vegagerðina ekki telja að borgaryfirvöld hafi komið fram með raunhæfar tillögur í málinu til þess að draga úr slysahættu á Hringbraut, en fundur var haldinn um málið á miðvikudag. Vegagerðin hóf framkvæmdir um morguninn og talið er að framkvæmdir muni standa yfir í um það bil tvær vikur. Heildar­kostnaður við verkefnið er um fimmtán milljónir króna.

„Það er okkar sjónarmið að þá megi bara taka vegriðið upp aftur og nota það annars staðar ef menn koma með aðrar raun­hæfar lausnir á málinu,“ segir Jónas.

Ólafur Bjarnason samgöngustjóri segir borgaryfirvöld hafa viljað skoða aðra möguleika en að setja upp vegrið á Hringbraut.

„Vegagerðin gerir þetta upp á sitt eindæmi. Við höfum verið að horfa á fleiri möguleika,“ segir Ólafur. „Þetta er þjóðvegur og er í eigu ríkisins. Það gerir það að verkum að Vegagerðin hefur rétt á því að gera það sem hún telur nauðsynlegt hverju sinni.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×