Innlent

Hótuðu ítrekað ofbeldi og lífláti

Fólkið hótaði lögreglumönnum ítrekað á leið á lögreglustöð.
Fólkið hótaði lögreglumönnum ítrekað á leið á lögreglustöð.

Ríkissaksóknari hefur ákært nítján ára stúlku fyrir ofbeldi og hótanir gegn lögreglu. Í ákæru segir að aðfaranótt sunnudagsins 30. maí síðastliðins hafi stúlkan ráðist með ofbeldi að tveimur lögreglumönnum sem voru við skyldustörf, sparkað í hægri sköflung annars þeirra og í hægra læri hins.

Atvikið átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Manhattan í Reykjanesbæ.

Jafnframt er stúlkunni gefið að sök að hafa í lögreglubifreið á leið á lögreglustöð með ógnandi hætti hótað öðrum lögreglumannanna líkamsmeiðingum og ofbeldi með því að láta þau orð falla að hún ætlaði að drepa fjölskyldu hans.

Þá hefur ríkissaksóknari ákært tvítugan mann fyrir að hafa á sama stað í apríl síðastliðnum ráðist með ofbeldi á lögreglumann, sem þar var við skyldustörf og sparkað í hægri fótlegg hans með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut bólgu og eymsli í hægri ökkla. Einnig hafi hann, í lögreglubíl á leið á lögreglustöð, með ógnandi framkomu ítrekað hótað tveimur lögreglumönnum, sem þá voru við skyldustörf, lífláti.

Bæði málin eru rekin fyrir Héraðsdómi Reykjaness.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×