Innlent

Vongóðir um uppbyggingu

Álframleiðendur hafa sérstaklega litið til Bakka við Húsavík varðandi staðsetningu á hugsanlegu álveri.
Álframleiðendur hafa sérstaklega litið til Bakka við Húsavík varðandi staðsetningu á hugsanlegu álveri.
Alþingis- og sveitarstjórnarfólk á Norðausturlandi telur ástæðu til að vera bjartsýnn á að brátt fari að draga til tíðinda varðandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðins eru fulltrúar frá kínverska fyrirtækinu Bosai Mineral Group væntanlegir til Íslands til viðræðna við Landsvirkjun.

Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, segist ekki geta staðfest það. Fyrirtækið sé að ræða við fyrirtæki í ýmsum greinum varðandi orku á svæðinu, ekki bara stóriðju.

„Ég skynja meiri meðbyr með því að við þurfum að skapa ný atvinnutækifæri til að búa til viðspyrnu gegn þeim samdrætti sem við erum í,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er aðalflutningsmaður þingsályktunartillögu þingmanna allra flokka nema Vinstri grænna þar sem skorað er á ríkisstjórnina að hefja strax viðræður við Alcoa á Íslandi og Bosai.

Orkumál á svæðinu eru í höndum Landsvirkjunar. Á haustfundi fyrir­tækisins sem haldinn var í vikunni sagði Hörður Arnarson forstjóri að viðræður stæðu yfir við nokkra hugsanlega orkukaupendur. „En það er ómögulegt að segja til um hvenær þær munu skila árangri.“

Þrátt fyrir að ekkert sé enn í hendi segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, að hann sé vongóður um að nú fari að rofa til í atvinnuuppbyggingu svæðisins.

„Sameiginlegu umhverfismati lýkur þann 25. nóvember, orkan er til staðar og eftir stendur bara að semja við orkukaupanda og koma hlutunum af stað hér fyrir Þingeyinga, land og þjóð.“ - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×