Innlent

Segir yfirheyrslur slitastjórnar vera í lagi

Steinunn Guðbjartsdóttir í yfirheyrsluherbergi slitastjórnar Glitnis.
Fréttablaðið/gva
Steinunn Guðbjartsdóttir í yfirheyrsluherbergi slitastjórnar Glitnis. Fréttablaðið/gva

Dómstjórinn í Reykjavík gerir engar athugasemdir við yfirheyrsluaðferðir slitastjórnar Glitnis. Þetta kemur fram í bréfi sem Helgi I. Jónsson dómstjóri hefur sent lögmanni Bjarna Jóhannessonar, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis.

Bjarni kvartaði til héraðsdóms yfir framgöngu Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnarinnar, og Bandaríkjamanns frá rannsóknarfyrirtækinu Kroll.

„Í bréfi yðar er rakið hvernig staðið var að skýrslutöku slitastjórnar 14. júlí sl. af umbjóðanda yðar, Bjarna Jóhannessyni, frá hans sjónarhóli séð. Í því efni er einkum vikið að því að nafngreindur bandarísku lögmaður hafi gengið hart fram í skýrslutökunni og hafi umbjóðanda yðar verið hótað velferðarmissi ef svör hans uppfylltu ekki væntingar slitastjórnarinnar,“ segir í svarbréfi Helga.

Í svari slitastjórnarinnar er ávirðingum Bjarna mótmælt með rökstuddum hætti. „Er það mat undirritaðs, að virtum skýringum slitastjórnar, að ekki séu efni til frekari aðgerða í máli þessu,“ skrifar Helgi.

Bjarni er einn þeirra sem yfirheyrðir voru vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á málefnum Glitnis á þriðjudag. Hann var handtekinn á heimili sínu um morguninn en sleppt síðar um daginn.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×