Innlent

Krefjast riftunar á kaupum Magma

Þingflokksfundur Vinstri græn telja að Samfylkingin hafi að sumu leyti komið í bakið á þeim í málinu.Fréttablaðið / stefán
Þingflokksfundur Vinstri græn telja að Samfylkingin hafi að sumu leyti komið í bakið á þeim í málinu.Fréttablaðið / stefán
Þingflokkur Vinstri grænna hefur komið þeirri skýlausu kröfu á framfæri við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn að fundin verði leið til að rifta kaupum kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins varð þetta einróma niðurstaða þingflokksfundar sem haldinn var um Magma-málið í gærkvöldi.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins telja þingmenn Vinstri grænna Samfylkinguna að einhverju leyti hafa farið á bak við sig í málinu, og í ljósi þess að tilvist Vinstri grænna grundvallist að hluta til á stefnunni í orkumálum sé afar brýnt að málið leysist. Samfylkingin hafi gert mistök í stjórnarsamstarfinu með því að stilla sér upp með öðrum flokkum í þessu tiltekna máli, gegn samstarfsflokknum.

Hefur þeim skilaboðum verið komið til Samfylkingarinnar að hún þurfi að íhuga sína stöðu gagnvart Vinstri grænum með þetta í huga, án þess þó að rætt sé um stjórnarslit í því samhengi.

Vinstri græn munu jafnframt gera þá kröfu að eignarhald á orkuauðlindum verði endurskoðað frá grunni ásamt lögum um erlenda fjárfestingu.

Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar og varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, hafði ekki heyrt af niðurstöðu þingflokksfundar VG í gær, en sagði að Samfylkingin ynni nú að farsælli lausn málsins í samstarfi við VG og áréttaði mikilvægi þess að efna til rannsóknar á sölu Hitaveitu Suðurnesja og kaupum Magma. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×