Erlent

Bush undirbjó árás á Íran og íhugaði að ráðast á Sýrland

Bush segir það hafa verið „slæma sviðsetningu“ að stilla sér upp fyrir framan áletrunina „Mission Accomplished“ eða „Verkefni lokið“ þegar hann lýsti því yfir að meiriháttar hernaði í Írak væri lokið strax í byrjun maí árið 2003.nordicphotos/AFP
Bush segir það hafa verið „slæma sviðsetningu“ að stilla sér upp fyrir framan áletrunina „Mission Accomplished“ eða „Verkefni lokið“ þegar hann lýsti því yfir að meiriháttar hernaði í Írak væri lokið strax í byrjun maí árið 2003.nordicphotos/AFP

Gerhard Schröder, fyrrverandi Þýskalandskanslari, segir að George W. Bush segi ekki rétt frá samskiptum þeirra í ævisögu sinni, sem kom út í vikunni.

Schröder hafnar því að hafa lofað stuðningi Þýskalands við innrás í Írak, en Bush segir í bókinni að Schröder hafi svikið það loforð. Schröder segist hins vegar eingöngu hafa lofað stuðningi ef í ljós kæmi að Írakar hefðu skotið skjólshúsi yfir þá sem báru ábyrgð á árásunum 11. september 2001.

Þá hefur David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagt að ekkert sé hæft í þeirri fullyrðingu Bush að Bandaríkjamönnum hafi tekist að bjarga mannslífum í Bretlandi með því að ná mikilvægum upplýsingum með pyntingum út úr föngum í Guantanamo-búðunum.

Bush viðurkennir í bókinni að hafa gefið samþykki sitt fyrir því að þrír fangar yrðu beittir vatnspyntingum. Hann segist reyndar ekki líta svo á að vatnspyntingar séu pyntingar, þótt Bandaríkin hafi til þessa jafnan kallað það pyntingar þegar bandarískir stríðsfangar hafa orðið fyrir þessari meðferð.

„Enginn vafi leikur á því að þetta var harkaleg aðferð, en læknar fullvissuðu leyniþjónustuna um að hún ylli engum varanlegum skaða,“ segir hann í bókinni.

Í ævisögu sinni viðurkennir Bush einnig að hafa látið skipuleggja árás á Íran og verið við því búinn að hrinda þeirri áætlun í framkvæmd.

Þá viðurkennir hann einnig að hafa íhugað hvort gera ætti árás á Sýrland að beiðni Ísraelsstjórnar, sem óttaðist að Sýrlendingar væru með kjarnorkuver í smíðum.

„Við skoðuðum hugmyndina ítarlega en leyniþjónustan CIA og herinn komust að þeirri niðurstöðu að það væri of mikil áhætta fólgin í því að lauma árásarsveit inn í Sýrland og út aftur,“ segir Bush í ævisögunni.

Bush viðurkennir margvísleg mistök í ævisögu sinni, sem kom út í gær og nefnist Decision Points. Meðal annars segir hann ýmis mistök hafa verið gerð í stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak. Hins vegar segist hann enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að ráðast á Írak.

Bush segist jafnan hafa reynt að taka vel á móti allri gagnrýni á sig, en einhverra hluta vegna situr í honum mótmælaskilti sem blasti við þegar hann hitti Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, árið 2003 á pöbbnum Dun Cow í smábænum Sedgefield í Englandi: „Mad Cowboy Disease“ stóð á skiltinu.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×