Innlent

Minna rennsli frá Gígjökli

Rennsli frá Gígjökli virðist fara minnkandi og eru hitasveiflur í vatnshita við gömlu Markarfljótsbrúna tengdar lofthita.
Rennsli frá Gígjökli virðist fara minnkandi og eru hitasveiflur í vatnshita við gömlu Markarfljótsbrúna tengdar lofthita.

Sérfræðingar telja að Eyjafjallajökull muni halda áfram að gjósa af fullum krafti næstu daga. Órói í dag var svipaður og í gærdag.

Vegna hlýinda og leysinga síðastliðinn sólarhring jókst rennsli í Markarfljóti og náði hámarki um miðnætti. Rennsli frá Gígjökli virðist hins vegar fara minnkandi og eru hitasveiflur í vatnshita við gömlu Markarfljótsbrúna tengdar lofthita. Ekki er hægt að greina á mælum neinar vatnsgusur undan Gígjökli, að því er fram kemur í skýrslu Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hugsanlegt er að aska nái að berast í leysingavatnið frá Sólheimajökli. Sýni hafa verið tekin af vatninu til greininga.

Enn mældust skjálftar í nótt og í dag. Frá 3. maí hafa mælst á þriðja tugskjálftar, byrjuðu djúpt eða á 18-23 kílómetra dýpi en hafa einnig mælst grynnri, allt upp í 2 kílómetra undir jöklinum, rétt sunnan við og undir toppgígnum.

Gígurinn heldur áfram að hlaðast upp í nyrsta ískatlinum. Hraun rennur til norðurs og breiðir úr sér í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hrauntungan er um 200 metra breið og hraunrásir að henni eru um 30-60 metra breiðar. Tröðin sem hraunið rennur um fer víkkandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×