Innlent

„Þetta eru auðvitað bara göngin okkar“

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vígði leiðina á laugardag ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, er Ögmundi á hægri hönd.mynd/vegagerðin
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vígði leiðina á laugardag ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, er Ögmundi á hægri hönd.mynd/vegagerðin

Þjóðvegurinn á milli Húsavíkur og Þórshafnar hefur nú styst um 53 kílómetra, eftir að Hófaskarðsleið var opnuð við hátíðlega athöfn í stórhríð síðastliðinn laugardag. Vegurinn leysir nú af Öxarfjarðarheiði, sem hefur aðeins verið fær að sumri til.

Gunnólfur Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir áfangann gríðarstóran.  „Þetta eru auðvitað bara göngin okkar. Tær snilld,“ segir hann. „Vegurinn kemur til með að breyta öllu fyrir íbúa hérna og fyrir aðra að koma til okkar.“

Gunnólfur segir opnunina vera lok áratuga baráttu.  „Ég held að það séu liðin um fimmtíu ár síðan byrjað var að berjast fyrir þessu,“ segir hann. „Þetta styttir leiðina fyrir Reykvíkinga til að koma að heimsækja okkur á Langanesi um 53 kílómetra.“

Gunnólfur segir húsnæðisvanda vera nokkurn á Þórshöfn og nánast sé barist um íbúðir á svæðinu. Ekki hefur verið byggt í bænum í tvo áratugi.

„Það hefur verið að koma fólk til vinnu hjá okkur frá til dæmis Kópaskeri og Raufarhöfn. En auðvitað viljum við að fólk búi hjá okkur,“ segir Gunnólfur. Hann segir að leigufélagið 5 Laugavegur sé nú að hefjast handa við að byggja sex leiguíbúðir á Þórshöfn til að anna eftirspurninni á svæðinu.

„Þetta er búið að vera mjög fínt og vegurinn á bara eftir að bæta ástandið,“ segir Gunnólfur.

Framkvæmdin tengir saman Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn með heilsársvegi. Er þetta lengsti vegarkafli með bundnu slitlagi sem tekinn er í notkun í einu á Íslandi; 39 kílómetra Hófaskarðsleið og nýr fjórtán kílómetra Raufarhafnarvegur, sem er afleggjari af Hófaskarðsleið. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar samkvæmt Vegagerðinni er rúmlega 2,5 milljarðar króna.

Ögmundur tók fram við opnunina að hann hefði öðlast nýja sýn á samgöngumál eftir að hafa vígt fjögur stór verkefni í vegagerð að undanförnu. Vegabætur fyrir íbúa viðkomandi svæða væru mun mikilvægari en hann hafði gert sér grein fyrir og ótrúleg sú gleði og bjartsýni sem lesa mætti úr orðum og fasi sveitarstjórnarfólks og íbúa þeirra byggða sem næst þessum framkvæmdum lægju.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×