Innlent

Niðurstaða í Icesave kemur Bjarna ekki á óvart

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Betri niðurstaða í Icesave málinu sem nú stefnir í kemur ekki á óvart, segir formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi fylgst vel með samningaferlinu og orðiðáskynja að mikill árangur hafi náðst.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær hafa samninganefndir Íslands og Breta og Hollendinga komið sér saman um grundvallaratriði í nýju samkomulagi um lausn á Icesave deilunni. Heimildir fréttastofu herma að viðsemjendur Íslands hafi gefið talsvert eftir í kröfum sínum og séu tilbúnir að semja um 3% vexti og 9 mánaða vaxtahlé. Horfur um endurheimtur á eignum Landsbankans hafa nú aldrei verið betri og ef það er tekið inn í myndina, stefnir í að 40-60 milljarðar falli á ríkissjóð í mesta lagi. Að mestu leyti væri um að ræða vaxtakostnað.

Upphæðin sem hér um ræðir byggir á ákveðnum forsendum um núvirðingu greiðslnanna sem falla á ríkissjóð á komandi árum, og fer upphæðin því eftir forsendum um núvirðingu. Þó er um að ræða mun lægri kostnað fyrir ríkissjóð en fyrri samningar gerðu ráð fyrir, meðal annars samkomulagið sem þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári.

Nokkur lagaleg atriði standa þó enn út af borðinu og er samningurinn ekki að fullu frágenginn.

Samkomulagið sem er í smíðum hefur verið kynnt hagsmunaaðilum, en ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins fundaði meðal annars með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í síðustu viku.

Þá hefur stjórnarandstaðan verið upplýst um gang mála, nú síðast á fundi fyrir nokkrum vikum en Lárus Blöndal er fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefnd Íslands.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að hann hafi stutt samningaferlið og fylgst náið með framvindunni. Bjarni segist hafa orðið þess áskynja að mikill árangur hafi náðst og því komi betri niðurstaða honum ekki á óvart.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×