Innlent

Stolið úr sjóðum frímúrarastúku

Maðurinn var ákærður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Maðurinn var ákærður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Sextugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að draga sér ríflega sex milljónir króna úr sjóðum Frímúrarastúkunnar Draupnis á Húsavík, meðan hann gengdi þar stöðu féhirðis. Féð notaði maðurinn í eigin neyslu.

Fjárdrátturinn átti sér stað á árunum 2001 til 2009. Sjóðir stúkunnar sem hann dró sér fé úr voru á þremur bankareikningum.

Þá er manninum gefin að sök umboðssvik. Á fjögurra ára tímabili hafi hann tíu sinnum breytt yfirdráttarheimild sömu frímúrarastúku úr 400 þúsund krónum, sem hún var samkvæmt ákvörðun stjórnar og í þrjár milljónir króna. Yfirdrátturinn var kominn í síðarnefndu upphæðina í lok tímabilsins.

Breytingarnar voru gerðar til að auka handbæra fjármuni stúkunnar sem maðurinn dró sér síðan að hluta að því er segir í ákæru.

Loks er maðurinn ákærður fyrir að leggja falsaða ársreikninga fyrir stjórn og endurskoðendur stúkunnar, sem sýndu mun betri eigna- og skuldastöðu hennar. Þetta gerði hann til að leyna brotunum sem hann er ákærður fyrir.

Stúkan krefst þess að fá peningana til baka.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×