Erlent

Hryðjuverk framin vegna sænskra hermanna og skopteiknara

Valur Grettisson skrifar
Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær.

Sænskum yfirvöldum barst tölvupóstur rétt fyrir hryðjuverkin í Stokkhólmi síðdegis í gær þar sem höfundur póstsins fordæmdi veru sænskra hermanna í Afganistan. Eins og áður hefur verið greint frá sprungu tvær bílasprengjur í miðborg Stokkhólms um klukkan fjögur í gærdag. Fjöldi Svía voru í miðborginni að kaupa jólagjafir.

Fyrri sprengingin varð á Drottningagötu en sú seinni aðeins um 300 metrum frá um 10 til 15 mínútum síðar. Þar virðist sem hryðjuverkamaðurinn hafi sprengt sig sjálfan í loft upp að auki. Sjónvarvottar lýsa því að ódæðismaðurinn hafi legið með sprungin maga á gangstéttinni.

Tveir Svíar slösuðust í árásinni. Ekki er vitað til þess hvort þeir hafi slasast alvarlega.

Aðeins augnabliki áður en sprengingarnar urðu fengu lögregluyfirvöld og sænskir fjölmiðlar tölvupóst sem talinn er vera frá hryðjuverkamönnunum. Í honum er vera sænskra hermanna í Afganistan fordæmd harðlega.

Í póstinum eru svokallaðir „Mujahideen" í Svíþjóð og víðar, sem eru íslamskir hermenn, hvattir til þess að rísa upp og berjast fyrir málstaði Íslam.

Jihad Jane vildi drepa Lars Vilks.

Þá er sænski teiknimyndahöfundurinn Lars Vilks einnig fordæmdur í póstinum. Lars komst í heimsfréttirnar í mars síðastliðnum þegar Colleen R. LaRose, oftast kölluð Jíhad Jane, frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum, skipulagði tilræði gegn Lars.

Sænski listamaðurinn er réttdræpur í augum róttækra íslamista vegna þess að hann teiknaði Múhammeð sem hringtorgshund. Jíhad Jane var dæmd í lífstíðarfangelsi.

Lögreglan segist vera að rannsaka póstinn, en í augnablikinu segja þau höfund póstsins vera reiðan út í sænska hermenn í Afganistan og illt umtal um Múhammeð spámann.

Sænsk yfirvöld hækkuðu viðbúnaðarstig sitt vegna ótta við hryðjuverkaárás í nóvember síðastliðnum. Ástæðan var sú að sænskar sellur, sem grunaðar voru um að undirbúa árás á Svíþjóð, breyttu mynstri sínu þannig að sænsk lögregluyfirvöld sáu ástæðu til þess að bregðast við því.

Lögreglan hefur ekki greint frá nafni hryðjuverkamannsins sem lést á vettvangi. Þess má geta að Svíar eru með um 500 hermenn í Afganistan.


Tengdar fréttir

Tvær sprengingar í miðborg Stokkhólms - einn látinn

Tvær sprengingar skóku miðborg Stokkhólms um klukkan fjögur í dag með þeim afleiðingum að einn lést og tveir slösuðust. Um er að ræða tvær bílsprengjur samkvæmt upplýsingum frá sænsku lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×