Innlent

Skuldugasta kynslóðin á fertugsaldri

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Fólk á fertugsaldri er í mesta vandanum.
Fólk á fertugsaldri er í mesta vandanum.

Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í vanda, samkvæmt skýrslu reiknimeistarahóps stjórnvalda, keypti fasteign eftir að bankarnir fóru að veita fasteignalán árið 2004. Skuldugusta kynslóðin er fólk á fertugsaldri.

Fjölmargar upplýsingar eru í skýrslunni sem ekki hafa legið á lausu í umræðu um skuldir heimilanna.

Ekki kemur þó á óvart að langflestir þeirra sem nú eru í vanda keyptu sér húsnæði á árunum 2004 til 2008, þegar fasteignaverð var í hæstum hæðum og hærri lán þurfti til að kaupa sambærilegar eignir og áður en bankarnir komu á markað.

Rúmlega 50% þeirra eru yngri en 40 ára og í skýrslunni segir að það bendi til að umtalsverður hluti hópsins hafi ekki verið að kaupa sína fyrstu fasteign.

Íbúðaskuldir eru hæstar hjá ungu fólki - og rísa hæstar hjá fólki á fertugsaldri en skuldir hjóna á þeim aldri eru að meðaltali um 23 milljónir króna en um 17 milljónir hjá einhleypum.

Skuldugustu heimilin eru langflest á suðvesturhorninu, rúmlega 80% þeirra sem eru í vanda - samkvæmt þeim neysluviðmiðum sem skýrslan byggir á - búa annaðhvort á höfuðborgarsvæðinu eða á Reykjanesi. Fæst eru heimili í vanda á Vestfjörðum.

Þá eru rúmlega 20 þúsund fasteignaeigendur sem skulda meira en nemur fasteignamati. Þetta eru nærri 30 prósent þeirra sem yfirhöfuð skulda húsnæðislán - og er hópurinn líklega stærri í raun því í þessum útreikningum er miðað við opinbert fasteignamat á þessu ári - það mat byggir hins vegar á upplýsingum frá árinu 2009. En vitað er að síðan þá hefur fasteignamat lækkað um 10 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×