Innlent

Læknar semja ekki um stórfellda lækkun

Læknavaktin á Smáratorgi
Læknavaktin á Smáratorgi

„Ég tel mér skylt að standa vörð um þessa þjónustu hér á landi. Ef semja á niður verð um allt að tuttugu prósent er sjálfhætt og læknarnir fara annað,“ segir Kristján Guðmundsson, formaður samninganefndar sérfræðilækna. Sérfræðilæknar munu ekki semja um átján prósent lækkun á taxta til að mæta sparnaðarkröfu fjárlaga, að hans sögn.

Sjúkratryggingar Íslands áætla að útgjöld vegna lækniskostnaðar árið 2011 verði rúmlega sex milljarðar króna en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir rétt tæpum fimm milljörðum. Stjórnvöld áætla því 1.126 milljóna króna sparnað á þessum fjárlagalið eða 18,7 prósent.

Kristján segir í raun þrjá kosti í stöðunni til að mæta kröfu fjárlagafrumvarpsins. „Semja við lækna um lægra verð, hækka sjúklingagjöld eða henda út úr kerfinu vissri þjónustu.“

Viðmælendur Fréttablaðsins hafa á orði að án afgerandi breytinga á fjárlagafrumvarpinu stefni í harkaleg átök lækna við ríkið. Kristján segir of snemmt að spá slíku en ef svo yrði væri það ekki fyrsta skipti. „Það má líka segja að það tekur langan tíma að byggja upp gott heilbrigðiskerfi en það tekur enga stund að rífa niður.“

Samningar sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands eru allir lausir 1. apríl næstkomandi, þeir fyrstu renna út um áramótin. Undir nefndum fjárlagalið fjárlagafrumvarpsins eru sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar, rannsókna- og röntgenstofur en jafnframt sjálfstætt starfandi heimilislæknar og greiðslur til rannsóknastofa á Landspítala vegna sjúklinga utan spítalans.

Um fjörutíu prósent lækna sem vinna samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar eru ekki í neinu eða afar litlu starfi hjá ríkinu eða stofnunum sem njóta rekstrarstyrkja frá hinu opinbera. Þessir læknar eru með um sextíu prósent af veltunni. Rúmlega 140 læknar starfa alfarið á eigin vegum en sérfræðilæknar eru um 340 talsins á Íslandi.

Skipta má heilbrigðisþjónustu á Íslandi niður í þrjár megin­stoðir. Þjónustu heilbrigðisstofnana, heilsugæslu og starfsemi sérfræðilækna. Sérgreinarnar eru fjölmargar, eða ríflega 25 talsins. Komur til sérfræðilækna árið 2009 voru 443 þúsund talsins.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×