Innlent

Loftsteinn lagður sem hornsteinn HR

Menntamálaráðherra og formaður nemendafélags HR lögðu hornstein að nýbyggingu skólans í gær. 
Fréttablaðið/Stefán
Menntamálaráðherra og formaður nemendafélags HR lögðu hornstein að nýbyggingu skólans í gær. Fréttablaðið/Stefán

Nýbygging Háskólans í Reykjavík (HR) við Nauthólsvík var vígð við hátíðlega athöfn í gær þar sem Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Magnús Júlíusson, formaður Stúdentafélags HR, lögðu hornstein að byggingunni. Steinn þessi er ansi merkilegur því um er að ræða fimm kílóa loftstein sem lenti á jörðinni fyrir um 4.000 árum. Forsvarsmenn skólans ákváðu að þar sem meginhugsunin í hönnun hússins sé jörðin og himingeimurinn, væri vel við hæfi að hafa loftstein sem hornstein skólans. Því réðust bakhjarlar HR í það verkefni að festa kaup á steininum og nutu til þess aðstoðar Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Vígsla hússins markar tímamót hjá HR þar sem nú er öll starfsemi skólans komin undir eitt þak. Byggingin er sem stendur um 30.000 fermetrar, en byggingu tveggja smærri álma, hefur verið skotið á frest sökum efnahagsástandsins. Um 3.000 nemendur eru nú við skólann og við hann starfa um 270 manns.

Við athöfnina í gær hélt forseti Íslands tölu og Jón Gnarr borgarstjóri kynnti samstarf HR, Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Íslands um uppbyggingu útivistarsvæðisins í Öskjuhlíð. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×