Innlent

Hafnar ásökun um misnotkun kirkju

Stefán Einar Stefánsson forstöðumaður Hins íslenska Biblíufélags segist sinna ýmsum ótengdum verkefnum á skrifstofu félagsins.Fréttablaðið/Arnþór
Stefán Einar Stefánsson forstöðumaður Hins íslenska Biblíufélags segist sinna ýmsum ótengdum verkefnum á skrifstofu félagsins.Fréttablaðið/Arnþór
Bjarki Steingrímsson, stjórnarmaður í VR, segir Stefán Einar Stefánsson, siðfræðing og forstöðumann Hins íslenska Biblíufélags, nota skrifaðstöðu í Hallgrímskirkju til sinna eigin afnota.

„Óska ég eftir að háttvirtur biskup Íslands hr. Karl Sigurbjörnsson hlutist til um að settar verði skýrar reglur um afnot starfsfólks kirkjunnar á eignum okkar sóknarbarna. Að Hallgrímskirkja skuli vera vettvangur lítils hóps aðila sem undirbúa að fella sitjandi formann VR og minnihluta stjórnar félagsins er harmleikur,“ segir Bjarki í bréfi til biskups.

Stefán Einar er bæði guðfræðingur og siðfræðingur. Hann er félagsmaður í VR og hefur að eigin sögn undanfarið aðstoðað félagið vegna ósættis innan stjórnar þess. Nú er svo komið að hann segist íhuga framboð til formanns stjórnarinnar á aðalfundi í vetrarlok.

Stefán segir grátlegt að Hallgrímskirkja og biskupinn skuli dregin inn í umræðuna um málefni VR. „Ég er búinn að svara þessu gagnvart biskupi og það er alveg samhljómur milli okkar í þessu máli,“ segir Stefán um notkunina á skrifstofunni í Hallgrímskirkju.

„Ég kalla hingað oft til fundar við mig fólk sem ég sinni ráðgjafaverkefnum fyrir. Ég kalla líka hingað nemendur mína sem ég kenni við háskólana tvo. Það hentaði mér þennan dag að hitta þar fólk sem hefur miklar áhyggjur af þróun mála í VR. Mig reyndar grunaði strax að óheilindafólk myndi reyna að draga þetta inn í umræðuna þannig að ég flutti fundinn annað um leið og ég áttaði mig á þeirri hættu,“ segir Stefán Einar. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×