Viðskipti innlent

Vextir í sögulegu lágmarki en svigrúm til frekari lækkunnar

Már Guðmundson seðlabankastjóri segir að Seðlabankavextir séu nú í sögulegu lágmarki og hafi ekki verið lægri í 50 ára sögu bankans. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands sem nú stendur yfir.

„Peningastefnunefnd telur eigi að síður að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til frekari lækkunar Seðlabankavaxta að því gefnu að gengi krónunnar haldist stöðugt og verðbólga hjaðni eins og spáð er," segir Már.

„Hún gerir þó þann fyrirvara að óvissa sé um hversu svigrúmið er mikið vegna áforma um afnám hafta á fjármagnshreyfingar. Verðbólguálag ríkisbréfa, eins og það er mælt af Seðlabankanum, hefur lækkað í framhaldi af vaxtaákvörðun á miðvikudaginn og er nú til fimm ára nokkurn veginn jafnt verðbólgumarkmiði bankans."

Már segir einnig að væntingar til skemmri tíma gætu lækkað enn meira á næstunni enda gerir verðbólguspá bankans ráð fyrir að verðbólga fari niður fyrir 2% þegar líður á næsta ár. Miðað við þessa mælikvarða eru virkir raunstýrivextir nú 2-2½%.

„Þetta eru lægri raunvextir en taldir voru jafnvægisraunvextir fyrir hrun og hugsanlega líka lægri en þeir sem munu ríkja þegar hagkerfið kemst aftur á beinu brautina. En meðan við erum á botni hagsveiflunnar er eðlilegt að raunvextir séu vel fyrir neðan það sem til lengdar mun gilda.

Eigi að síður er ljóst að þegar vextir lækka frekar því minna verður svigrúmið sem eftir verður. Eins og nú horfir tel ég hins vegar ekki að vaxtabotninum hafi verið náð," segir Már.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×