Innlent

Slegist um málverk

Mikil ásókn er í olíumálverk eftir Eggert Pétursson en það er nú í eigu þrotabús VBS fjárfestingabanka, sem hefur auglýst það til sölu. Verkið er metið á margar milljónir.

Slitastjórn VBS fjárfestingabanka hefur auglýst eftir tilboðum í olíuverk eftir Eggert Pétursson. Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa aflaði í dag eru sambærileg verk eftir listamanninn metin á 3-4 milljónir króna.

„Í okkar huga er þetta ein af perlum íslenskrar myndlistar á Íslandi og það hafa margir sýnt þessu áhuga og við vildum hafa ferlið gegnsætt þannig að flestir gætu komist í það að gera boð ef þeir hafa áhuga," segir Þorsteinn Ólafs framkvæmdastjóri VBS.

Og hvað hafa mörg tilboð borist? „Nokkur, og höfðu það líka áður en við auglýstum. Okkar vinna hér er að hámarka eignir bankans og þetta er ein leiðin."

Slitastjórn VBS undirbýr riftunarmál og íhugar að höfða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum bankans, en vinnur líka að sölu á lausamunum úr þrotabúinu.

„Við erum að koma þeim í verð sem við erum ekki að nota í dag, riftunarmál eru í ferli og þeim á eftir að fjölga mikið og það eru mikið stærri tölur," segir Þorsteinn.

Frestur til að skila inn tilboði í málverkið rennur út í lok næstu viku. Eru þetta viðunandi tilboð sem eru að berast?

„Það hafa borist sæmileg tilboð en við viljum sjá eitthvað meira."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×