Erlent

Er grunaður um fleiri ódæði

Fjöldi kvenna hefur komið fram í kjölfar handtöku Amager-nauðgarans.
Fjöldi kvenna hefur komið fram í kjölfar handtöku Amager-nauðgarans.
Hálffimmtugur maður er nú í gæsluvarðhaldi í Danmörku, grunaður um að minnsta kosti tvær nauðganir og eitt morð á tuttugu ára tímabili. Hann gæti tengst enn fleiri málum en síðustu daga hafa fjölmargar konur stigið fram og tilkynnt nauðganir á síðustu árum sem aldrei komu til kasta lögreglu.

Upp komst um manninn í kjölfar nauðgunar á 17 ára stúlku í síðasta mánuði, en lífsýni úr smokki sem fannst nálgægt vettvangi tengdi árásirnar þrjár saman. Málin sem um ræðir er annars vegar morð á fertugri konu árið 1990 og nauðgun frá árinu 2005.

Eftir að lýst var eftir vitnum þrengdist hringurinn um þann grunaða, sem var handtekinn um helgina, og virðast lífsýni úr honum passa við þau sem fundust á vettvangi glæpsins. Í gær birtist svo í BT ítarlegt viðtal við föður stúlkunnar sem varð fyrir síðustu árásinni, og segir hann að dóttir sín hafi borið kennsl á manninn af ljósmyndum. Ove Dahl, yfirmaður morðdeildar lögreglunnar í Kaupmannahöfn, sagði í samtali við fjölmiðla að þeir væru nú að skoða fjölmörg óleyst morð og nauðgunarmál frá lokum níunda áratugarins og bera saman við þetta mál.- þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×