Innlent

Velta á fasteignamarkaði dregist saman um 70 prósent

Höskuldur Kári Schram skrifar

Velta á fasteignamarkaði hefur dregist saman um nærri sjötíu prósent frá því hún náði hámarki árið 2007. Margt bendir þó til þess að markaðurinn sé að taka við sér á ný eftir langvarandi samdráttarskeið.

Fasteignamarkaðurinn hefur verið í frjálsu falli frá því kreppan skall á. Árið 2007 nam velt á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu 310 milljörðum króna. Árið 2008 nam veltan 110 milljörðum og var komin niður í 70 milljarða árið 2009. Allt bendir til þess að veltan verði í kringum 80 milljarða á þessu ári.

Þó ekki sé um mikla aukningu að ræða gætu þetta verið fyrstu merki þess að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér eftir eitt mesta samdráttskeið síðari tíma.

Árið 2006 var rúmlega sjö þúsund og fimm hundruð kaupsamningum vegna fasteigna þinglýst á höfuðborgarsvæðinu - samkvæmt tölum frá Þjóðskrá. Tæplega tíu þúsund samningum var þinglýst árið 2007 en aðeins þrjú þúsund og fimm hundruð árið 2008. Ástandið hélt áfram að versna árið 2009 þegar rétt rúmlega tvö þúsund samningum var þinglýst. Markaðurinn hefur tekið við sér á þessu ári en þann 16. desember síðastliðinn var búið að þinglýsa rúmlega tvö þúsund og sjö hundruð samningum.

Fasteignaverð hefur haldist stöðugt á þessu ári og hækkað reyndar lítillega eftir margra mánaða samfellda lækkun. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er nú á svipuðum slóðum og hún var í árslok 2006.

Um áramótin tekur svo gildi nýtt fasteignamat sem felur í sér rúmlega tíu prósenta lækkun á fasteignamati á höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjum lækkar fasteignamat um sjö komma fögur prósent en minna á öðrum stöðum á landinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×