Innlent

Fjármálaráðherra mælir fyrir níu þingmálum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur Sigfússon mælir fyrir níu málum á Alþingi í dag, samkvæmt dagskrá.
Steingrímur Sigfússon mælir fyrir níu málum á Alþingi í dag, samkvæmt dagskrá.
Það er í nógu að snúast hjá Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Af fimmtán málum sem eru á dagskrá þingsins mun fjármálaráðherrann mæla fyrir níu þeirra. Eitt af þeim frumvörpum sem ráðherra mælir fyrir er heimild skattayfirvalda til að kyrrsetja eigur ef grunur leikur á brotum á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Þessari heimild er ætlað að bregðast við hættu á undanskoti eigna meðan rannsókn stendur yfir. Segir í greinargerð með frumvarpinu að málsmeðferðartími vegna þessara brota geti orðið mjög langur og því aukin hætta á því að þeir aðilar sem sæti rannsókn reyni að koma sér undan greiðslum skatta og mögulegra fésekta með því að færa eignir sínar í hendur öðrum eða koma þeim undan með öðrum hætti.

Heimild til kyrrsetningar var sett í lög um tekjuskatt fyrr á árinu og var talið að sú heimild tæki til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga um virðisaukaskatt og laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirr niðurstöðu að almenn tilvísun virðisaukaskattslaga til tekjuskattslaga dygði ekki til að veita lagaheimild til kyrrsetningar vegna ætlaðra brota gegn virðisaukaskattslögum. Því lagði fjármálaráðherra fram þetta frumvarp sem hann mælir fyrir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×