Innlent

Leigubílstjóri rændur: „Þetta var óhugnanleg lífsreynsla“

Leigubílstjórinn sem Fréttablaðið ræddi við segir 99 prósent farþega í góðu lagi.
Leigubílstjórinn sem Fréttablaðið ræddi við segir 99 prósent farþega í góðu lagi.
„Þetta var mjög óhugnanleg lífsreynsla," segir leigubílstjóri sem Fréttablaðið ræddi við í gær. Hann varð fyrir því í fyrrinótt að farþegi ógnaði honum með sprautunál og rændi síðan. Bílstjórinn vill ekki koma fram undir nafni, þar sem það gæti valdið honum frekari óþægindum.

Leigubílstjórinn skýrir svo frá að það hafi verið upp úr miðnætti í fyrrakvöld sem hann var með bílinn kyrrstæðan í nágrenni við 10-11 verslunina við Dalveg.

„Ég sé að maður kemur labbandi og spyr mig hvort bíllinn sé laus. Ég jánkaði því og hann settist inn. Þegar ég sá framan í hann hugsaði ég með mér: „Hvað er ég búinn að taka upp í?" því ég sá strax að hann var dópaður og ruglaður."

Maðurinn sagðist hafa verið að vinna í næsta húsi og þyrfti að komast í Trönuhjalla. Leigubílstjórinn gerði sem hann var beðinn um.

„Þegar við vorum komnir á áfangastað spurði hann mig hvort ég gæti skipt fimm þúsund kalli. Ég teygði mig í veskið sem var í hurðinni og þá notaði hann tækifærið, teygði sig í bíllykilinn og drap á bílnum. Ég sá þá að hann hélt á notaðri, ógeðslegri sprautu með nál í hendinni alveg við hliðina á mér."

Maðurinn heimtaði peninga af leigubílstjóranum. Eitthvað hafði hann upp úr krafsinu, stökk út úr bílnum, fleygði lyklunum frá sér og hvarf út í myrkrið.

„Ég hringdi þegar í lögreglu, sem mætti á staðinn með það sama," segir bílstjórinn. „Mitt næsta verk verður að fá mér myndavél í bílinn."

Ræninginn var ófundinn síðdegis í gær, en lögregla leitaði hans.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×