Innlent

Meira í velferðarmál á næsta ári en 2007

Árni Mathiesen lagði fram fjárlagafrumvarp ársins 2007. Við kynningu þess sagði hann stöðu ríkissjóðs vera að styrkjast. Það gæfi aukna möguleika á að gera ýmsa hluti. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 15,5 milljarða afgangi.
fréttablaðið/pjetur
Árni Mathiesen lagði fram fjárlagafrumvarp ársins 2007. Við kynningu þess sagði hann stöðu ríkissjóðs vera að styrkjast. Það gæfi aukna möguleika á að gera ýmsa hluti. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 15,5 milljarða afgangi. fréttablaðið/pjetur
Útgjöld ríkisins til tiltekinna velferðarmála verða hærri á næsta ári en var árið 2007.

Samanburður sem gerður var í fjármálaráðuneytinu á fjárlagafrumvörpum áranna 2007 og 2011 leiðir þetta í ljós. Í honum er ekki tekið tillit til breytinga sem urðu á frumvörpunum í meðförum þingsins.

Um er að ræða útgjöld til lífeyristrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga, framhaldsskóla og háskóla.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2007 námu útgjöld til þessara málaflokka tæplega 90 milljörðum króna. Var það 6,84 prósent af vergri landsframleiðslu þess árs.

Í frumvarpi næsta árs voru rúmlega 126 milljarðar ætlaðir til áðurgreindra málaflokka. Það eru 7,76 prósent af landsframleiðslu.

Sé fjárhæðin frá 2007 núvirt nemur hún 120 milljörðum króna.

Útgjöld til allra málaflokkanna hafa hækkað nokkuð í krónum talið en standa svo að segja í stað sé miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Mesti munurinn er á útgjöldum til atvinnuleysistrygginga en þau hafa hækkað um 20 milljarða milli áranna.

Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa útgjöld til sjúkratrygginga og háskóla hækkað en lækkað til lífeyristrygginga og framhaldsskóla.

Verg landsframleiðsla árið 2007 var 1.308 milljarðar króna en er áætluð 1.628 milljarðar á næsta ári.

Vaxtagjöld ríkisins hafa vaxið gríðarlega á milli áranna 2007 og 2011. Fyrrnefnda árið voru þau tæpir sautján milljarðar króna, 1,28 prósent af vergri landsframleiðslu, en á næsta ári munu þau nema 75 milljörðum króna og vera 4,61 prósent af landsframleiðslu.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×