Innlent

Geir vildi að Björgvin bæri ábyrgð á neyðarlögunum

Björgvin G. Sigurðsson og Geir H. Haarde.
Björgvin G. Sigurðsson og Geir H. Haarde. Mynd/GVA

Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, vildi að Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, flytti frumvarp til hinna umdeildu neyðarlaga hinn 6. október 2008, en því var harðlega andmælt af öðrum ráðherrum.

Í nýrri bók Björgvins fer hann yfir atburðarásina í aðraganda setningu neyðarlaganna og reynslu sína úr embætti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde.

Kornið sem fyllti mælinn

Björgvin lýsir fundi nóttina fyrir setningu neyðarlaganna sem hann átti með Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Össurar Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra og íslenskum embættismönnum með erlendum bankamönnum. Í ræðu hafi talsmaður hóps frá JP Morgan sagt að ákvörðunin um að þjóðnýta Glitni hafi verið kornið sem fyllti mælinn og þjóðnýtingin hafi gert vonina um að bjarga bankakerfinu að engu. 

Af fundinum með J.P. Morgan héldu embættismennirnir út í nóttina til að ljúka gerð frumvarps um neyðarlög til þess að veita FME heimild til að taka yfir rekstur fjármálafyrirtækja.

Lögðust gegn tillögu Geirs

Í bókinni lýsir Björgvin því einnig að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi lagt á það áherslu að Björgvin flytti frumvarp til neyðarlaganna, sem reyndust síðar afar umdeild. Björgvin segist hafa verið reiðubúinn til slíks en aðrir ráðherrar ríkisstjórninarinnar hafi lagst gegn því að ungur fagráðherra tæki slíka pólitíska sprengju að sér.

Og mun Össur Skarphéðinsson ekki hafa tekið það í mál að Björgvin flytti frumvarpið. Björgvin lýsir því þannig að Össur hafi sagt við Geir, þú flytur þetta mál. Annað er ekki sæmilegt, þetta eru neyðarlög allt getur farið á annan endann. Bók Björgvins kemur út eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×