Innlent

Hjálparþurfi fólki fjölgar

Hópurinn um Jólaaðstoð 2010 mun deila út vörum til þeirra sem þurfa í þessu vöruhúsi við Skútuvog. Söfnunarátakið er nýhafið og er vonast til að fylla sem flestar hillur með mat og öðrum nauðsynjum fyrir jólin. Fréttablaðið/GVA
Hópurinn um Jólaaðstoð 2010 mun deila út vörum til þeirra sem þurfa í þessu vöruhúsi við Skútuvog. Söfnunarátakið er nýhafið og er vonast til að fylla sem flestar hillur með mat og öðrum nauðsynjum fyrir jólin. Fréttablaðið/GVA
Nær öruggt er talið að mun fleiri muni leita á náðir hjálparstofnana og félagasamtaka fyrir þessi jól en þau síðustu. Þetta kom fram á fundi sem haldinn var í gær til kynningar á átakinu Jólaaðstoð 2010.

Þar var opinberað formlegt samstarf Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Rauða krossins í Reykjavík og Hjálpræðishersins, en vonast er til þess að með sameiginlegu átaki sé hægt að auka þjónustu við þá sem þurfa á hjálp að halda.

Þess ber að geta að Fjölskylduhjálp Íslands stendur fyrir utan þetta samstarf, en stendur fyrir úthlutunum á mat og nauðsynjum hvern miðvikudag.

Á fundinum kom fram að um fjögur þúsund fjölskyldur af landinu öllu hefðu leitað aðstoðar fyrir síðustu jól, og er fastlega búist við því að fjöldinn í ár verði ekki undir 4.500. Er það ráðið af því hve mikið aðsókn í matar­aðstoð hefur aukist í haust.

Elín Hirst, talsmaður hópsins um Jólaaðstoð, segir að þeim sem þurfi á hjálp að halda hafi fjölgað verulega í haust og að um holskeflu sé að ræða.

„Ástæður þess að fólk leitar aðstoðar fyrir jólin eru margþættar, en við vitum það að útgjöld aukast verulega hjá fólki vegna jólanna. Þeir sem hafa lág laun eða njóta lágra bóta lenda nú sem aldrei fyrr í erfiðleikum með að ná endum saman.“

Elín bætir því við að auðvitað sé erfitt að leita sér svona aðstoðar.

„Við vitum að þetta eru þung skref sem enginn tekur nema nauðbeygður.“

Eitt lykilatriðið að baki þessu starfi er að fá sjálfboðaliða til starfs, en um það bil 400 slíka vantar. Þeir sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum geta snúið sér til Rauða krossins, sem hefur umsjón með þeim þætti starfsins.

Þeir sem þurfa á Jólaaðstoð að halda þurfa fyrst að sækja um aðstoð hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Öryrkjabandalaginu eða hjá Hjálpræðishernum, dagana 1. til 10. desember. Stefnt er að því að reyna að ná til allra landsmanna sem þurfa á hjálp að halda og verður því afgreiðsla á Akureyri, Grindavík og Keflavík auk þess sem allir geta snúið sér til presta eða félagsþjónustu í sinni heimabyggð.

Jólaaðstoð hefur fengið aðstöðu, sér að kostnaðarlausu, í vöruhúsi við Skútuvog 3, sem er í eigu feðganna Karls Steingrímssonar og Arons Karlssonar.

Talsmenn átaksins sögðust vongóðir um hlýjar viðtökur, enda væri samtakamáttur Íslendinga ávallt mikill þegar reyndi á.

thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×