Erlent

Laukurinn velur Grýlu sem eina mikilvægustu persónu ársins

Skjáskot af vef Lauksins
Skjáskot af vef Lauksins
Enginn hafði jafn mikil áhrif á flugumferð á árinu sem er að líða og hin hryllilega tröllkona Grýla sem í vor stóð fyrir eldgosinu í Eyjafjallajökli. Aska gossins dreifðist víða um lönd og varð til þess að loka þurfti flugvöllum um alla Evrópu. Kostnaður alþjóðasamfélagsins vegna eldgossins nam hundruðum milljónum dollara.

Þetta er lausleg þýðing á upphafi greinar sem birtist á vefritinu kómíska The Onion, eða Lauknum. Ritstjórn Lauksins hefur valið mikilvægasta fólk ársins 2010 og er sjálf Grýla þar í sautjánda sæti. Laukurinn er þekktur fyrir að snúa veruleikanum á hvolf þannig að fólk brosir út í annað, hið minnsta.

Laukurinn heldur áfram með nýstárlega sýn sína á gosið í Eyjafjallajökli:

Upphaflega var talið að „Huldufólk" hefði komið eldgosinu af stað vegna reiði sinnar í garð dauðlegra manna sem höfðu vanhelgað jökulinn með heimsóknum sínum veturinn áður. Hafist var handa við að senda huldufólkinu sætindi og aðrar gjafir, og virtust þær hafa þau áhrif að gosmökkurinn minnkaði um stund þannig að einstaka flugvél gat komist leiðar sinnar. Þar sem sætindin virtust ekki hafa afgerandi áhrif á gosið ákváðu menn að leita annarra skýringa.

Eftir að þeir höfðu sömuleiðis útilokað „Lagarfljóts"-orminn komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að Grýla væri ábyrg eldglæringunum, en Grýla er best þekkt fyrir að dúsa í helli sínum utan þess sem hún leitar að óþekkum börnin fyrir Jólin til að stinga í pokann sinn. Þegar skýringin á eldgosinu var fundin hafði það þegar haft geigvænlegar afleiðingar, matarsendingar höfðu úldnað og fjöldi leiðtoga hafði misst af jarðarför pólska forsetans, Lech Kaczynski.

Óþolinmóðir ferðalangar reyndu hvað þeir gátu til að stöðva tröllkonuna en ekkert gekk. Þá ákváðu íslenskir embættismenn að framkvæma fornan galdur sem fólst í að skera rúnir í eikarplatta og kasta að fótum Grýlu. Var það mál manna að þetta hefði þurft að gera mun fyrr en eins og búist var við hætti eldgosið og flugsamgöngur voru komnar í lag aðeins nokkrum klukkustundum síðar.

Í framhaldinu var ákveðið að fylgjast náið með Grýlu, og í varnaðarskyni, einnig með ófríðu börnunum hennar þrettán.

Lesa má „fréttina" um Grýlu á vef Lauksins með því að smella hér.

Laukurinn byrjaði að telja niður í tuttugasta sæti þegar kemur að mikilvægustu manneskju ársins. Í dag er Laukurinn kominn að sautjánda sætinu og heldur niðurtalningin áfram fram að áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×