Erlent

Ákæra um áreitni rannsökuð

Julian Assange Hefur birt fjölmörg viðkvæm ríkisleyndarmál á vefsíðunni Wikileaks.
Julian Assange Hefur birt fjölmörg viðkvæm ríkisleyndarmál á vefsíðunni Wikileaks. fréttablaðið/Vilhelm

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á ekki lengur yfir höfði sér ákærur fyrir nein kynferðisbrot í Svíþjóð.

Karin Rosande, talsmaður saksóknaraembættisins í Svíþjóð, segir Assange þó enn grunaðan um að hafa áreitt konu, en tekur fram að áreitni telst ekki til kynferðisglæpa samkvæmt sænskum lögum. Undir áreitni getur hins vegar fallið margvísleg hegðun, svo sem óviðeigandi snerting af einhverju tagi eða yfirgangur og almennur ruddaskapur.

Verði hann fundinn sekur af þeirri ákæru gæti hann átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsisdóm.

Eva Finne aðalsaksóknari sagði hins vegar að engin ákæra yrði lögð fram í máli annarrar konu, sem sakaði Assange um kynferðis-glæp. Á föstudag kvað Finne upp þann úrskurð að engin ákæra yrði lögð fram vegna nauðgunar, en í gær kvað hún upp þann úrskurð að engin ákæra yrði heldur lögð fram á hendur honum fyrir kynferðisbrot af öðru tagi gagnvart þeirri konu.

Claes Borgstrom, lögmaður beggja kvennanna, segir ekkert hæft í ásökunum um að kærur þeirra séu lagðar fram að undirlagi bandarískra stjórnvalda, sem eru ósátt við birtingu viðkvæmra leyndarmála á vefsíðunni Wikileaks.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×