Innlent

Þarf að fjölga heimilislæknum um 20 til 30

Heilbrigðisráðherra Guðbjartur Hannesson segir brýnt að nýta skattpeninga sem best. Hins vegar verði tímafrekt að endurskipuleggja reglur um aðgang sjúklinga að þjónustu sérfræðilækna.
Heilbrigðisráðherra Guðbjartur Hannesson segir brýnt að nýta skattpeninga sem best. Hins vegar verði tímafrekt að endurskipuleggja reglur um aðgang sjúklinga að þjónustu sérfræðilækna.
Fulltrúar fjögurra stærstu þingflokkanna gáfu til kynna við umræður á Alþingi í gær að þeir styddu það að sérfræðiþjónusta í heilbrigðiskerfinu yrði endurskipulögð og aðgangur að ódýrri þjónustu takmarkaður með einhvers konar tilvísunarkerfi.

Til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu heimilislækna í kjölfar breytingarinnar þyrfti að mennta 20 til 30 nýja sérfræðinga í heimilislækningum til starfa á höfuðborgarsvæðinu og kom fram að vegna þess gæti undirbúningur málsins tekið meira en tíu ár. Nefnd heilbrigðisráðuneytisins um málið er að störfum og skilar líklega tillögum um næstu mánaðamót.

Tilvísunarkerfi felur í sér að ríkið niðurgreiðir ekki sérfræðiþjónustu lækna nema sjúklingar framvísi tilvísun frá heimilislækni. Nú greiða sjúklingar sama gjald til sérfræðinga hvort sem þeir framvísa tilvísun heimilis­læknis eða ekki. Siv Friðleifs­dóttir, Framsóknarflokki, hvatti til að fylgt yrði fordæmi Dana, þar sem fólk á þess kost að standa utan tilvísunarkerfis en greiða þá hærra gjald fyrir þjónustu sérfræðinga. 98% hafa valið almenna kerfið og tilvísanir.

Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra sagði að breyting á kerfinu krefðist ítarlegs undir­búnings. Hann sagðist stefna að því að vinna að breytingum á núverandi kerfi í eins mikilli pólitískri sátt og kostur er eftir að nefnd ráðuneytisins lýkur störfum í lok þessa mánaðar. „Það skiptir miklu máli að menn séu ekki að breyta um stefnu með hverjum nýjum ráðherra,“ sagði Guðbjartur. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×