Innlent

Börn læra um jafnrétti

Jafnréttisfrömuðir Þær Sigurbjörg Hallgrímsdóttir og Unnur Gunnarsdóttir hafa sett saman verkefni sem stuðlar að bættu jafnréttisviðhorfi grunnskólabarna.Fréttablaðið/Valli
Jafnréttisfrömuðir Þær Sigurbjörg Hallgrímsdóttir og Unnur Gunnarsdóttir hafa sett saman verkefni sem stuðlar að bættu jafnréttisviðhorfi grunnskólabarna.Fréttablaðið/Valli
Jafnréttisverkefnið Jafnrétti kynjanna frá landnámi til vorra daga hefur verið kynnt fyrir kennurum í ýmsum grunnskólum í Reykjavík undanfarið, meðal annars í Selásskóla og Langholtsskóla. Markmiðið er að kynna nýstárlegar aðferðir til að vinna á úreltum hugmyndum um hlutverk kynjanna, sem fyrirfinnast enn meðal skólabarna.

Nýverið birtust niðurstöður samnorrænnar könnunar sem leiddi í ljós að víða er pottur brotinn þegar kemur að viðhorfum íslenskra unglinga í jafnréttismálum kynjanna. Þar kom í ljós talsverð fylgni við úreltar staðalhugmyndir um hlutverk kynjanna.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um könnunina var rætt við félagsfræðing sem sagði að lausnin fælist í meiri fræðslu í jafnréttismálum og þyrfti í raun að flétta slíka fræðslu inn í allt nám á grunnskólastigi.

Það felst einmitt í jafnréttisverkefninu, sem þær Sigurbjörg Hallgrímsdóttir og Unnur Gunnarsdóttir, kennarar við Vogaskóla, standa fyrir með stuðningi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Þar eru jafnréttismál samtvinnuð Íslandssögu og íslenskukennslu grunnskóla á skemmtilegan hátt, þar sem nemendur vinna fjölbreytt verkefni tengd sögu og landi.

Sigurbjörg segir í samtali við Fréttablaðið að þær hafi farið víða um land með verkefnið og alls staðar fengið góðar viðtökur.

„Það sem við erum að benda öðrum kennurum á er að það er hægt að nota þetta verkefni í öllum aldurshópum og það er hægt að koma þessu jafnréttisverkefni inn í allt námsefni. Þannig að í stað þess að gera sérstakt fag eigum við að setja þetta inn í allt sem við gerum."

Verkefnið má rekja aftur til 2008 þegar menntamálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og fleiri stóðu fyrir átaki í völdum skólum þar sem unnin voru tilraunaverkefni á sviði jafnréttismála.

„Nokkur munur var á viðhorfi drengja og stúlkna í upphafi verkefnisins. Gerð var könnun á vegum Jafnréttisstofu á viðhorfi barnanna fyrir og eftir að þau tóku þátt í verkefninu og niðurstöður sýndu umtalsverða breytingu á viðhorfi þeirra gagnvart hlutverkum kynjanna. Það á eftir að skila sér þegar fram í sækir," segir Sigurbjörg.

Framlag þeirra hlaut góðan hljómgrunn og hafa þær farið víða um land með verkefnið og vonast til að fara enn víðar.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×