Innlent

Skóladagvistun hækkar mest í Kópavogi

Mynd úr safni
Gjaldtaka fyrir skóladagvist í yngri bekkjum grunnskólanna og verð á skólamáltíðum hækkaði víða um áramótin. Mest hækkaði gjald fyrir skóladagvist í Kópavogi, þar sem þriggja tíma dagleg vistun ásamt síðdegishressingu hækkaði um 35% milli ára og í Reykjavík hækkaði gjaldið um 22%.

Mest hækkaði skólamáltíð milli ára hjá Kópavogi um 25% og í Árborg um 20%.

Mikill verðmunur er á gjaldtöku fyrir skóladagvist og skólamáltíða milli sveitarfélaganna.

Lægsta mánaðargjaldið fyrir skólagavist og hressingu er á Fljótdalshéraði 12.100 krónur á mánuði en hæsta gjaldið er í Garðabæ 22.106 krónur. Verðmunurinn er 10.006 krónur á mánuði eða 83%.

Ódýrasta skólamáltíðin er í Skagafirði á 231 krónur en sú dýrasta í Garðabæ á 428 krónur. Verðmunurinn er 197 krónur eða 85%.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ á gjaldtöku í grunnskólum í fjölmennustu sveitarfélögunum landsins.

Mánaðargjald fyrir skóladagvist með hressingu

Níu sveitarfélög af þeim fimmtán sem skoðuð eru hækka hjá sér gjaldskránna fyrir skóladagvist á milli ára.

Lægsta mánaðargjaldið fyrir skóladagvist og hressingu er hjá Fljótdalshéraði 12.100 krónur á mánuði en hæsta gjaldið er í Garðabæ 22.106 krónur á mánuði. Verðmunurinn er 10.006 krónur eða 83%.

Mest hækkar gjald fyrir þriggja tíma dagvistun í Kópavogi en þar hækkar mánaðargjaldið úr 14.175 krónum í 19.125 krónur sem eru 4.950 krónur á mánuði eða 35%.

Reykjavíkurborg hækkar næst mest mánaðargjaldið um 22% og Garðabær og Árborg koma þar á eftir með 13% hækkun.

Óbreytt gjaldskrá er á milli ára hjá Akranesi, Fljótdalshérað, Seltjarnarnesi, Hafnarfirði, Fjarðarbyggð og Akureyri.

Verð fyrir skólamáltíð

Tíu sveitarfélög af þeim fimmtán sem skoðuð eru hafa hækkað hjá sér gjaldið fyrir hádegismatinn milli ára. Mesta hækkunin er hjá Kópavogi en þeir hafa hækkað gjaldið fyrir eina máltíð úr 280 kr. í 350 kr. eða um 25%. Sveitarfélagið Árborg hækkar um 20% og Reykjanesbær um 16%. Mjög misjafnt er hvað foreldrar þurfa að greiða fyrir hádegismatinn, en munurinn er allt að 85% á milli sveitafélaganna. Hæsta gjaldið fyrir eina máltíð er hjá Garðabæ 428 kr. en lægsta gjaldið er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 231 kr. Óbreytt verð er á milli ára hjá Akranesi, Ísafjarðarbæ, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Akureyri.

Heildargjald með hressingu og skólamáltíð

Þegar skoðað er heildargjald fyrir skóladagvistun með hressingu og hádegismat, er Sveitafélagið Skagafjörður með lægsta verðið fyrir þjónustuna 17.871 krónur á mánuði en hæsta verðið er 31.094 krónur hjá Garðabæ sem er 13.223 krónu verðmunur á mánuði eða 74%.

Einnig má sjá að heildarkostnaðurinn hækkar hjá flestum sveitafélögunum nema Akranesi, Akureyri og Seltjarnarnesi.

Mesta gjaldskráhækkunin á milli ára er hjá Kópavogskaupstað, úr 20.055 krónum í 26.475 krónur sem er hækkun um 6.420 krónur á mánuði eða 32% , næst mesta hækkunin á heildargjaldinu er hjá Reykjavíkurborg en þar hækkar heildargjaldið um 18% úr 15.633 krónum á mánuði. í 18.440 krónur.



Systkinaafslættir hjá sveitafélögunum


Systkinaafslættir eru misjafnir eftir sveitafélögum. Afslátturinn fyrir annað barn er frá 25% upp í 75% og afslátturinn fyrir þriðja barnið er 50% upp í 100%.

Öll sveitafélögin eru með stighækkandi afslátt með fjölda barna. Reykjavíkurborg er með hæsta systkinaafsláttinn, en þar er veittur 75% afsláttur með öðru barni og 100% með þriðja. Ekki er gefinn afsláttur af fæði.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaganna hvernig gjaldskráin er uppbyggð, til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir að hjálpa til með heimalærdóm og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir. En til að einfalda samanburð milli sveitarfélaganna miðar verðlagseftirlitið samanburð sinn við mánaðargjald miðað við 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag, samtals 63 tíma á mánuði.

Einungis er um verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×