Handbolti

Anton og Hlynur stefna á stórmót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Besta handboltadómarapar landsins, Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson, voru valdir bestu dómarar annars hluta N1-deildar karla og kom það fáum á óvart.

"Þetta er mjög gaman og mikill heiður að fá þessi verðlaun," sagði Hlynur og Anton tók undir að það skipti máli að fá klapp á bakið fyrir vel unnin störf.

Þrátt fyrir góða frammistöðu bæði hér heima og erlendis á undanförnum árum hafa þeir félagar ekki enn fengið tækifæri á stórmóti en þangað stefna þeir ótrauðir.

"Markmiðið er að komast á stórmót," sagði Hlynur en Anton sagðist ekki vita hvenær það gerðist en vonast þó eftir því að þeir fái tækifæri á næsta stórmóti.

"Það sem þarf til er samspil margra þátta. Standa sig vel innan vallar sem utan. Svo þarf líka að vera þolinmóður," sagði Anton en skiptir ekki máli að þekkja líka rétta fólkið? "Það spilar eflaust inn í," sagði Hlynur.

Það er oft talað um mikla spillingu í alþjóða handbolta en þeir félagar segjast ekki hafa orðið varir við það.

Þeir félagar eru búnir að dæma saman í 15 ár og eru enn góðir vinir. Þeir segjast ekkert fá nóg af hvor öðrum og hafa enn gaman af því sem þeir eru að gera.

"Þetta er þrælgaman. Annars væru maður ekki enn í þessu," sagði Anton en verða þeir aldrei þreyttir á öllum skotunum úr stúkunni?

"Þetta hefur breyst síðustu ár. Menn eru orðnir þægilegri," sagði Anton en er hægt að útiloka allt það sem kemur úr stúkunni?

"Maður verður að læra að útiloka það sem kemur þaðan. Einbeitingin skiptir máli. Maður vill samt hafa líf í þessu. Það verða að vera tilfinningar í þessu."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×