Handbolti

Atli: Ætlum að vinna þá titla sem eru eftir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var valinn besti þjálfari annars hluta N1-deildar karla en hann fékk einnig verðlaunin eftir fyrsta hlutann.

"Ég hefði nú frekar viljað vinna á laugardaginn. Engu að síður er gaman að fá svona verðlaun og að það sé tekið eftir því sem maður er að gera. Ég tek við þessum verðlaunum fyrir hönd félagsins og það er auðvelt að vera þjálfari hjá þessum frábæru leikmönnum," sagði Atli auðmjúkur.

Akureyri fékk einnig verðlaun fyrir umgjörð enda einstaklega vel haldið utan um hlutina fyrir norðan.

Síðasti hluti deildarinnar er eftir og Atli segir að nú fari að reyna á.

"Það eru sex leikir eftir. Við þurfum að halda áfram á okkar striki og ná í titil. Það er það sem við þurfum að gera. Við erum búnir að tapa tveimur titlum en það eru tveir eftir og við þurfum að ná í þessa tvo sem eftir eru," sagði Atli sem hefur ekki áhyggjur af því að það verði erfitt að rífa liðið upp eftir tapið í bikarnum.

Það verður endurtekning á bikarúrslitaleiknum á morgun er Valur sækir Akureyri heim.

"Þetta er óskaleikur til þess að rífa liðið upp. Ef það er ekki metnaður til þess að hefna núna þá veit ég ekki hvenær."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×