Innlent

Pöddur og skordýr í heimahúsum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geitungar eru fremur leiðinlegir gestir í heimahúsum. Mynd/ E. Ól.
Geitungar eru fremur leiðinlegir gestir í heimahúsum. Mynd/ E. Ól.
„Ef þú þekkir fyrirbærið þá þarftu ekki að vera með æsing, heldur bregðast rétt við,“ segir Þóra Hrafnsdóttir líffræðingur. Pöddur, eins og ryklús, hambjöllur, húsamaur, silfurskottur - og svo humlur og geitungar eru yfirleitt illa séðir gestir í heimahúsum. Þóra segir að sér finnist viðbrögð við slíkum gestum oft líkjast hysteríu. Þörf sé á meiri fræðslu um slík dýr. Hún ætlar að bæta úr þessu með fyrirlestri í sal Náttúrufræðistofu Kópavogsbæjar á morgun. „Auk þess vil ég gefa innsýn í það sem mér finnst vera heillandi heimur smádýra," segir Þóra í samtali við Vísi. 

Þóra segir kjarna málsins vera þann að það þurfi að auka fræðslu um dýrin. „Það er svo lítið af dýrum hér á norðurhjara að við erum ekki eins vön að umgangast þau. Ég tel til dæmis útlendingar sem búa á meginlandi Evrópu kippi sér ekki eins upp við að sjá eitthvað svona innandyra,“ segir Þóra. Íbúar á meginlandinu þekki smádýrin betur og séu því síður hræddir við þau. „Við erum svo góðu vön af því að það eru svo fáar pöddur hérna og þegar við loksins sjáum eitthvað þá verður maður hræddur af því að maður þekkir það ekki,“ segir Þóra. 

Þóra segir að það sé algert grundvallaratriði að vita hvers konar smádýr maður er að fást við. „Ef þú veist það þá getur þú leitað þér upplýsinga um það hvar dýrið er helst að finna. Tengist þetta raka eða ekki? - Eða er þetta bara slæðingur utan úr garði? Ef þetta er eitthvað sem tengist raka þá er það að leita að uppsprettunni og laga það,“ segir Þóra. Með slíkum lagfæringum ætti dýrið að hverfa. Eins sé auðvelt að bregðast við ef dýrin tengist matvælum. Þá sé málið að fjarlægja matvælin sem um ræðir.

Fyrirlestur Þóru verður í húsnæði Náttúrufræðistofu Kópavogs klukkan fimm á morgun. Erindið, er flutt í tengslum við Kópavogsdaga, menningarhátíð Kópavogs, sem nú stendur yfir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×