Viðskipti innlent

Sólin skín hjá sérstökum saksóknara

Valur Grettisson skrifar
Glitnir vill átta milljarða frá Sólinni sem skín. Málið er komið inn á borð til sérstaks saksóknara.
Glitnir vill átta milljarða frá Sólinni sem skín. Málið er komið inn á borð til sérstaks saksóknara.
Skiptastjóri eignarhaldsfélagsins Sólin skín ehf., Páll Kristjánsson, hefur vakið athygli sérstaks saksóknara á starfsemi félagsins og sent gögn þar af lútandi til embættisins.

„Mér fannst það rétt með tilliti til þessara háu krafna sem töpuðust," segir Páll og bætir við: „En ég tek enga sérstaka afstöðu til sektar þeirra."

Baugur Group og þrotabú Glitnis gera samtals 11 milljarða króna kröfu í félagið sem er gjaldþrota og fullkomlega eignalaust.

Félagið var í eigu Baugs, Fons, Glitnis og Kevins Stanfords. Baugur Group lánaði fyrirtækinu þrjá milljarða króna án nokkurra trygginga á sínum tíma. Sólin skín var svo úrskurðað gjaldþrota í lok árs 2009. Tilgangur félagsins var að fjárfesta í hlutabréfum í bresku verslanakeðjunni Marks og Spencer.

Forsvarsmaður félagsins var Stefán H. Hilmarsson, endurskoðandi en hann starfaði sem fjármálastjóri Baugs Group um árabil og er núverandi fjármálastjóri 365 miðla. Hann var úrskurðaður gjaldþrota í júlí á síðasta ári eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá háum kröfum í félagið Sólin skín snemma á síðasta ári. Þá sagði Stefán að kröfur Glitnis hefðu eingöngu verið vegna framvirkra hlutabréfaviðskipta.

Stefán sagði einnig að Glitnir banki hefði gert veðkall á félagið rétt fyrir bankahrunið haustið 2008 og í kjölfarið selt hlutabréfin í Marks og Spencer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×