Innlent

Hrefnuveiðimenn bjóða upp á hvalaskoðun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Bergmann Jónsson við skutulinn. Mynd/ Vilhelm.
Gunnar Bergmann Jónsson við skutulinn. Mynd/ Vilhelm.
Hrefnuveiðimenn ætla að bjóða ferðamönnum upp á hvalaskoðun í haust. Hugmyndin er að kynna fyrir ferðamönnum hvernig hvalveiðar fara fram og að leyfa þeim að smakka hrefnukjöt. „Við myndum fara einhvern tímann í ágúst. Þá erum við búnir að veiða það sem við ætlum að veiða," segir Gunnar Bergmann Jónsson, eigandi Hrefnuveiðimanna. Hrefnuveiðimenn eru einkahlutafélag sem sér um mestallar veiðar á hrefnum við Ísland í dag.

„Þessi hugmynd kom upp fyrst í fyrra. Við byrjuðum að tala við fólk í kringum okkur og þá sérstaklega fólk sem er að selja svona ferðir," segir Gunnar. Hann segir þó að ekki hafi gefist færi á að bjóða upp á slíkar ferðir í fyrra því undirbúningurinn að þessu hafi tekið smá tíma. Í ferðunum er grillað hrefnukjöt og búnaðurinn sem er notaður til að veiða hrefnur er kynntur fyrir fólki.

Fjallað er um málið á vefsíðu breska blaðsins Guardian. Þar segir Gunnar að ekki verði veiddir neinir hvalir í ferðunum. Hann segir í viðtali við blaðið að þegar hafi borist bókanir í ferðirnar frá Englandi og Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×