Innlent

Erfitt að fá fólk í vinnu á Búðarháls

Það virðist það ganga illa að manna störf á virkjanasvæðinu, þrátt fyrir góð laun.
Það virðist það ganga illa að manna störf á virkjanasvæðinu, þrátt fyrir góð laun.
Illa hefur gengið að manna störf á virkjanasvæðinu á Búðarhálsi, að sögn staðarstjóra Ístaks, þrátt fyrir góð laun og mikla vinnu, á tímum atvinnuleysis. Verktakinn, Ístak, er kominn með 175 manns í vinnu á svæðinu. Staðarstjóri félagsins, Páll Eggertsson, segir að stærsti hlutinn séu Íslendingar. Einnig séu Pólverjar sem þeir telji í raun íslenska enda búsettir á landinu.

Á tímum atvinnuleysis mætti ætla að slegist væri um störfin á Búðarhálsi. Það hefur hins vegar ekki reynst einfalt að fá menn, segir Páll, án þess að vita skýringuna. Spurður hvort reyndir og góðir virkjanamenn séu fluttir af landi brott segir Páll alveg ljóst að einhverjir séu farnir.

Ætla mætti að þetta væru störf sem menn sæktust eftir, - með uppgripum, - og Páll segir það rétt að vinnan sé mikil og ágætis laun.

-En samt eigið þið í vandræðum með að fá fólk?

"Það hefur allavega ekki gengið neitt sérlega vel, - í sum störf," svarar Páll og nefnir meðal annars störf í mötuneyti.

Það tekur um hundrað mínútur að aka úr Reykjavík á Búðarháls á malbikuðum vegi alla leið. Kristinn Eiríksson, staðarverkfræðingur Landsvirkjunar, segir að það geti verið leiðigjarnt með tímanum að vinna á hálendinu fjarri mannabyggðum. Menn reyni þó að lífga upp á tilveruna með ýmsum hætti, þannig hafi starfsmenn til dæmis aðgang að golfvelli í Búrfelli. Þá sé ágætt að taka sprett upp á fjöll í grenndinni til að hressa upp á líkamann.

Þarna segjast þeir njóta náttúrufegurðar og segir Kristinn að þeir séu snortnir af landslaginu þarna við Sultartangalón, sem er manngert þótt það virki eins og fjörður.



.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×