Innlent

Engin hætta af díoxíni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sorpbrennslustöðin Funi.
Sorpbrennslustöðin Funi.
Díoxín í jarðvegi er í öllum tilvikum undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu, hreinsun jarðvegs eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Þetta eru meginniðurstöður mælinga sem Umhverfisstofnun lét gera á styrk díoxína í jarðvegi um allt land. Greint er frá þessu á vef umhverfisráðuneytisins.

Niðurstöðurnar sýna að almenningur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir. Búið er að loka sorpbrennslunni Funa í Engidal og mun því ekki verða meiri uppsöfnun á díoxínum í jarðvegi af hennar völdum.

Við sorpbrennsluna í Vestmannaeyjum mældist styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og þarf að mati Umhverfisstofnunar að draga úr losun díoxína þar til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun.

Alls voru tekin 50 sýni í nágrenni við allar hugsanlegar uppsprettur díoxína. Það eru sorpbrennslur, stóriðjur og áramótabrennur auk viðmiðunarsýna. Sýnatakan fór fram seinnihluta maímánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×