Innlent

Skora á stuðningsmenn KR í Mýrarbolta

Boði Logason skrifar
Mýrarbolti
Mýrarbolti Mynd/Vilhelm
„Ég trúi ekki öðru en þeir taki þessu annars eru þeir gungur," segir Eyþór Jóvinsson, forsvarsmaður stuðningsmannafélags BÍ/Bolungarvíkur, sem ber nafnið Blár og Marinn.

Þeir hafa nú skorað á stuðningsmannafélag KR, Miðjuna, í Mýrarbolta áður en undanúrslitaleikur liðana í Valitor-bikarnum fer fram um Verslunarmannahelgina.

Evrópumótið í Mýrarbolta verður haldið á Ísafirði í 8. sinn og hefur mótið vaxið með hverju ári og hefur líklega aldrei verið stærra. Eyþór segir að hugmyndin sé að skapa stemmingu fyrir leiknum en búast má við mörgum KR-ingum í bæinn yfir helgina til að fylgjast með sínu liði.

„Ég held að það verði alveg stappað á vellinum því hér er alltaf fullt af fólki yfir Verslunarmannahelgina. Þetta verður heljarinnar hátíð enda er rosalega gaman að fá svona stórt lið í heimsókn," segir Eyþór.

Ekki er vitað hvort að Miðjan taki boðinu en áskorunin var send á fjölmiðla sem og á meðlimi Miðjunnar. „Nú er bara að bíða og sjá hvort að þeir þora að taka boðinu, þeir geta ekki annað en tekið þessu," segir Eyþór léttur í bragði.

Eyþór bendir á að stuðningsmannafélagið Blár og Marinn hafi einungis verið til í þrjá leiki en miðjan sé töluvert eldri og reynslumeiri. „Fótboltahefðin er nýtilkomin hingað á Ísafjörð og því verður þetta bara skemmtileg - ef þeir taka áskoruninni," segir Eyþór að lokum.

Hvað er Mýrarbolti?

Mýrarbolti svipar mjög til fótbolta nema að leikið er í mýri, en ekki á grasi. Þar að auki eru leikreglur öllu frjálslegri og refsingar fyrir leikbrot í skrautlegri kantinum, þar ber helst að nefna að leikmenn kyssa á bágtið, verða fyrir skítkasti eða eru látnir spila með hauspoka. Vænta má að úrslitin í mýraboltanum gefi fyrirheit um það sem koma skal í undanúrslitaleiknum, því búast má við hörku spennu og skemmtun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×