Innlent

Fólskuleg árás á unga konu í Búðardal

Búðardalur
Búðardalur Mynd/Óli Kristján
Ráðist var á unga konu sem starfaði í Samkaup í Búðardal í fyrrakvöld með þeim afleiðingum að hún fór úr kjálkalið og fékk áverka í andliti. Þetta kemur fram á fréttavefnum Skessuhorn.

Þar er haft eftir Díönu Ósk Heiðarsdóttur verslunarstjóra að taldar eru líkur á að maðurinn sem réðst á konuna hafi falið sig inni í versluninni eða elt starfsmann sem átti leið í verslunina skömmu eftir lokun.

Þegar starfsmaðurinn kom inn í verslunina um kvöldið sá hún ljós inni á lagernum. Í þann mund var ráðist á hana og hún slegin með fullri kókdós í andlitið. Höggið var mjög öflugt og sprakk dósin í andlitinu á konunni.

Grunar að Dalasýsla sé dreifingarmiðstöð fyrir fíkniefni

Konan hlaut áverka í andliti og fór úr kjálkalið auk þess sem árásarmaðurinn tætti og reif föt hennar. Því næst lagði árásarmaðurinn á flótta og er ófundinn. Samkvæmt vef Skessuhorns er hann hár og grannur að vexti.

Unga konan hringdi á Neyðarlínuna og svo virðist sem útkallið hafi brugðist. Það tók sjúkrabíl 45 mínútur að koma á staðinn en ekki fyrr en búið var að hafa beint samband við sjúkraflutningamann sem býr í Búðardal.

Unga konan dvaldi á sjúkrahúsi í tæpan sólarhring áður en hún fékk að fara heim.

Á vef Skessuhorn segir að eftir atburðinn finnist íbúum öryggi sínu ógnað og krefjast þess að löggæslumálum verði komið í viðunandi horn. „Segja þeir umferð um héraðið hafa stóraukist eftir bætta vegtengingu um héraðið á Vestfirði um Arnkötludal. Þar við bætist að fólki gruni að Dalasýsla sé nú notuð sem dreifingarstöð fyrir ólögleg efni og slíkt ástand geti kallað á afbrot af ýmsu tagi,“ segir ennfremur á vef Skessuhorns.



Vefur Skessuhorn





Fleiri fréttir

Sjá meira


×