Innlent

BUGL var óheimilt að senda upplýsingar um barn í pósti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Barnið hafði þegið þjónustu á BUGL.
Barnið hafði þegið þjónustu á BUGL.
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans braut gegn reglum um öryggi við meðferð persónuupplýsinga með því að senda með almennum og óvörðum pósti viðkvæmar persónuupplýsingar í skýrslu um barn og greiningu á barninu. Móðirin kvartaði yfir meðferð upplýsinganna til Persónuverndar.

Í nóvember í fyrra barst Persónuvernd kvörtun frá móður barns yfir því að upplýsingar um greiningu barns hennar og lokaniðurstöður hefðu verið sendar i almennum pósti frá barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Við sendinguna hafi upplýsingarnar týnst. Konan segir í kvörtun til Persónuverndar að sonur sinn hafi farið í greiningu á BUGL og niðurstöður verið sendar í pósti til sín, föður hans, skóla og félagsþjónustu en bréfið hafi aldrei borist sér. „Skil ekki hvers vegna foreldrum er ekki afhent þessi skýrsla á fundi eða send í ábyrgðarbréfi. Svona skýrslur/niðurstöður hafa miklar persónulegar upplýsingar að geyma með kennitölum og öllu saman og ég er alveg miður mín," segir konan í póstinum.

Landspítalinn segir í svari til Persónuverndar að spítalinn hafi talið að póstsendingin hafi verið í samræmi við lög. Þegar Persónuvernd gekk eftir frekara svari sagði Spítalinn að bréf sem þessi yrðu ekki send sem ábyrgðarbréf frá Landspítala þar sem kostnaðurinn við það væri einfaldlega of mikill. Hins vegar komi til greina að senda upplýsingar sem þessar með póstkröfu þannig að viðtakandi greiði fyrir viðtöku eða jafnvel að slíkum póstsendingum verði hætt og þess krafist að upplýsingar sem þessar verði sóttar á spítalann.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu, í úrskurði sem birtur var í dag, að BUGL hafi verið óheimilt að senda upplýsingarnar í almennum pósti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×