Innlent

Áætlun um færslu flugvallarins heldur sér

Hafsteinn Hauksson skrifar
Vélar á vellinum
Vélar á vellinum
Formaður skipulagsráðs segir að áfram verði stefnt að því að færa Reykjavíkurflugvöll í áföngum í drögum að nýju aðalskipulagi. Hann segir umræðu um svæðið undanfarna daga byggða á misskilningi.

Núgildandi aðalskipulag gildir til ársins 2024, en þar segir að frá árinu 2016 verði ekki rekin fleiri en ein flugbraut á Reykjavíkurflugvelli frá árinu 2016. Frá þeim tíma verði hafist handa við að undirbúa svæðið fyrir frekari uppbyggingu, en aðeins er gert ráð fyrir flugrekstri á vellinum til enda skipulagstímabilsins árið 2024.

Nú stendur yfir vinna við nýtt aðalskipulag sem kemur til með að gilda öllu lengur, eða til ársins 2030. Drögin að skipulaginu verða kynnt í haust, en að sögn Páls Hjaltasonar, formanns skipulagsráðs, verður engin breyting á framtíð flugvallarins frá fyrra aðalskipulagi eins og drögin líta út.

„Þetta er óbreytt, það er ennþá gert ráð fyrir að þessar dagsetningar haldi sér," segir Páll. Hann segist ekki sjá fyrir sér að þær breytist, þó flugvallarmálin séu alltaf í skoðun.

Nú er til umræðu samkomulag milli innanríkisráðuneytisins og borgarinnar sem felur í sér að fallið verð frá byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni, en hægt verði að ráðast í endurbætur á aðstöðunni á Reykjavíkurflugvelli. Í fréttum okkar í gær sagði Ögmundur Jónasson Innanríkisráðuneytisins að samkomulagið festi flugvöllinn í sessi til næstu ára. Páll segir hins vegar að samningurinn hafi ekkert með framtíð flugvallarins að gera að þessu leyti.

„Nei, hann hefur ekkert með þetta að gera og tekur enga afstöðu til þess. Það sem er hins vegar mikill og góður kostur við samninginn er að Reykjavík getur fengið til skipulags svæði meðfram sjónum í Skerjafirðinum, og getur þannig byrjað að skipuleggja hverfi í Vatnsmýrinni."

Hann segist telja að umræða um flugvöllinn undanfarna daga sé byggð á misskilningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×