Innlent

Segir umræðuna um samningsmarkmið í bakherbergjum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir að umræðu um samningsmarkmið Íslands gagnvart ESB eigi að draga inn í bakherbergi samninganefndarinnar.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki vilja hvika frá skýlausri kröfu Bændasamtakanna um fullkomna tollvernd íslenskra matvæla í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Sambandið er í eðli sínu tollabandalag, en fram kemur í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn Íslands að þar sem ESB sé í grunninn tollabandalag yrðu augljósustu áhrif ESB aðildar á tollamál hér á landi að Ísland þyrfti að taka upp tollskrá ESB. Við aðild myndu tollar milli Íslands og aðildarríkja ESB falla niður, m.a á landbúnaðarafurðum.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir eðlilegt að setja fram kröfu um tollvernd íslenskra matvæla í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Er það ekki óskhyggja að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og halda kröfu um tollvernd íslenskra matvæla til streitu? „Margt í áliti meirihluta Alþingis frá 16. júlí 2009 er óskhyggja. Undir það ætla ég að taka. Þeir verða frekar að svara því frekar en við, en við viljum aftur á móti draga umræðuna um samningsmarkmiðin og heildarhagsmuni Íslands fram í dagsljósið því okkur sýnist að umræðuna um hagsmuni Íslands og samningsmarkmið eigi að draga inn í bakherbergi samninganefndar Íslands," segir Haraldur.

Hvað áttu við með því? "Hvar fer fram opin umræða um samningsmarkmið Íslands? Það er skortur á henni."

Haraldur gagnrýnir einnig að í samninganefndinni hafi sjónarmiðum landbúnaðarins ekki verið haldið á lofti, en hann segir að "varnarlínurnar hafi ekki verið dregnar" þegar komi að landbúnaðinum.

Í fundargerð samninganefndarinnar frá 19. maí birtist ágreiningur um undirbúning samningsmarkmiða vegna landbúnaðarmála og formaður samningahópsins lýsti því yfir að umboð fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis væri takmarkað að því er varðar skoðun á öðrum kostum en tollvernd. Er það ekki skýr birtingarmynd þess að landbúnaðurinn eigi sína fulltrúa í samninganefndinni og því sé vel verið að halda á lofti kröfum bænda?

„Ég get ekki svarað því, ég hef ekki lesið fundargerðirnar nákvæmlega. Eina sem ég veit er að samningahópur um landbúnað hefur ekki komið saman í heild sinni frá 21. febrúar síðastliðnum þannig að það hefur ekki farið fram nein umræða um afstöðuna til landbúnaðarmála, í raun og veru," segir Haraldur. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×