Innlent

Álverð hækkaði áttfalt meira en nýja orkuverðstengingin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Álverð hefur hækkað um þrjátíu prósent á því eina ári sem liðið er frá því Landsvirkjun samdi við álverið í Straumsvík um að afnema tengingu raforkuverðs við verðþróun á áli. Það er áttfalt meiri hækkun en á bandarísku neysluvísitölunni, sem tekin var upp í staðinn sem verðtenging, en hún hefur hækkað um 3,6 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Raforkusamningar álveranna hérlendis voru í aldarþriðjung almennt tengdir verðþróun áls í heiminum. Fyrir ári varð stefnubreyting þegar Landsvirkjun og Rio Tinto Alcan sömdu um að tengja orkuverð við bandarísku neysluvísitöluna.

Ekki er hægt að fullyrða hvort annar aðilinn hafi haft tilefni til að brosa breiðar þegar forstjórar fyrirtækjanna undirrituðu nýja samninginn í júní í fyrra þar sem efnisatriði samningsins fást ekki uppgefin en hann tók gildi í haust. Frá því samningurinn var hins vegar undirritaður hefur álverð í heiminum rokið upp, hækkað úr rúmlega 1.900 dollurum tonnið upp í 2.500 dollara tonnið, en þetta er um 30 prósenta hækkun. Bandaríska neysluvísitalan, nýja orkuverðsviðmið Landsvirkjunar, hefur hins vegar hækkað um 3,6 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, segir breytinguna engu að síður skynsamlega, og ekki aðeins að mati Landsvirkjunar, heldur einnig að mati ráðgjafa fyrirtækisins, fjármálastofnana og matsfyrirtækja. Þá sé Landsvirkjun enn með mjög háa álverðstengingu og um 50 prósent af tekjum fyrirtækisins séu tengd álverði. Aðalatriðið sé þó hversu hátt orkuverðið sé og umtalsverð hækkun hafi fengist með nýju samningunum í fyrra.

Hörður bendir á að álverð hafi sögulega ekki náð að fylgja bandarísku neysluvísitölunni og verið að jafnaði um hálfu prósenti lægra. Allt bendi því til að þetta sé því betra. Auk þess hafi tilgangurinn verið sá að draga úr áhættu fyrirtækisins en hún hafi verið of mikil.

Þegar bent er á að álverð hafi hækkað margfalt meira en bandaríska neysluvísitalan á þessu eina ári segir Hörður að þrátt fyrir það sé Landsvirkjun betur sett þar sem samið hafi verið um betra verð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×