Innlent

Sakaði kennara um líkamsárás - höfðaði mál níu árum síðar

Kennari í Hvassaleitisskóla var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Kennari í Hvassaleitisskóla var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði kennara í Hvassaleitisskóla af skaðabótakröfu fyrrverandi nemanda síns, sem þá var í 10. bekk.

Atvikið átti sér stað fyrir ellefu árum síðan, eða árið 2000. Nemandinn, sem nú er tæplega þrítugur, höfðaði málið árið 2009.

Málsatvik voru þau að piltinum var vikið úr skólastofu þar sem kennarinn taldi að hann hefði kastað í sig tyggigúmmíi. Í ljós kom síðar að pilturinn var saklaus af þeim hrekk.

Kennarinn vildi meina að hann hefði vísað piltinum út úr skólastofunni með því að ýta við öxl hans og skipaði honum að fara til skólastjórans. Þegar pilturinn var kominn út úr skólastofunni sparkaði hann í hurð skólastofunnar sem varð til þess að kennarinn fór fram til hans.

Þar segir pilturinn að kennarinn hefði tekið sig hálstaki og þrengt þannig að öndunarfærum hans að hann átti í erfiðleikum með að anda. Þá heldur hann því einnig fram að kennarinn, sem hefur verið að kenna í skólanum síðan á áttunda áratug síðustu aldar, hefði lyft sér upp á hálsinum og skellt höfðinu í vegg með þeim afleiðingum að hann hlaut heilahristing.

Þessu neitar kennarinn staðfastlega.

Í framburði mannsins kemur fram að hann hafi óskað eftir því að sjúkrabíll yrði kallaður til þegar þeir voru komnir á skrifstofu skólastjóra. Skólastjórinn hafnaði þeirri beiðni. Þá missti pilturinn stjórn á skapi sínu og vitni segjast hafa séð hann kasta sér á vegg og stóla.

Pilturinn gekk sjálfur á spítala þar sem læknar skoðuðu hann. Kom þá í ljós að hann var með heilahristing. Í framburði mannsins kemur fram að hann hefði kastað upp á spítalanum en gögn lækna renna ekki stoðum undir þá frásögn.

Pilturinn segist hafa borið varanlega örorku eftir umrætt atvik og það hafi skert möguleika hans til náms, en hann hafi ætlað að starfa sem kjötiðnaðarmaður. Það hafi hann þó ekki getað þar sem hann getur ekki unnið í frosti í langan tíma í einu. Nú starfar hann sem bílasali.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að engin vitni hafi verið að þeim atburði, sem maðurinn skýrir frá, og á að hafa átt sér stað á ganginum. Vitni segjast hafa heyrt öskur, sem getur samræmst framburði mannsins, sem kvaðst hafa verið reiður og verið með fúkyrði við kennarann. Á hinn bóginn bera vitni, sem sáu piltinn á eftir uppi á kennaraskrifstofu, og hjá skólastjóra og á göngum þar, að hann hefði kastað sér með hægri öxl á veggi og stóla. Er því ekki unnt að útiloka, að pilturinn hafi sjálfur valdið þeim áverkum, sem hann kveðst hafa fengið umræddan dag.

Þá segir ennfremur í dóminum maðurinn hefði sýnt ótrúlegt tómlæti við að halda uppi kröfum sínum níu árum eftir að atvikið.

Var kennarinn því sýknaður. Nemandinn þarf hinsvegar að greiða rúma hálfa milljón í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×