Innlent

Vilja að fólk í fæðingarorlofi fái líka eingreiðslu

Guðlaug Kristjánsdóttir er formaður BHM.
Guðlaug Kristjánsdóttir er formaður BHM.
Bandalag háskólamanna lýsir andstöðu við þá túlkun vinnuveitenda að synja fólki í fæðingarorlofi um 50 þúsund króna eingreiðslu sem samið var um í nýgerðum kjarasamningum.

Í tilkynningu frá bandalaginu er þessi ráðstöfun sögð sérlega ómálefnaleg þegar horft sé til opinberra vinnuveitenda, ekki síst ríkisins, í ljósi þess að eingreiðslan er greidd atvinnuleitendum og lífeyrisþegum. „Viðbótarkostnaður ríkissjóðs við að láta eingreiðsluna einnig ná til nýbakaðra foreldra í fæðingarorlofi er smávægilegur í samanburði,“ segir einnig. Þá telur bandalagið það ekki stjórnvöldum sem kenna sig við jöfnuð og félagshyggju að láta viðgangast að nýbakaðir foreldrar séu teknir út fyrir sviga hvað þessar kjarabætur áhrærir.

„Bandalagið hafnar því alfarið að umsamin eingreiðsla af hálfu opinberra vinnuveitenda sé tafabót vegna samningslauss tímabils, enda höfnuðu viðsemjendur öllum kröfum BHM um afturvirkar kjarabætur.  Sé þessi upphæð tafagreiðsla í samningum Alþýðusambandsins vegna þeirra þriggja mánaða sem félagsmenn ASÍ voru án kjarasamnings, ætti upphæðin hjá félagsmönnum BHM að vera margfalt hærri, enda voru þeir án kjarasamnings í rúm tvö ár.“

BHM krefst þess að vinnuveitendur greiði fólki í fæðingarorlofi samningsbundna 50 þúsund króna eingreiðslu og skilji þennan hóp ekki eftir óbættan hjá garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×