Innlent

Fleiri leita á fíknigeðdeild

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Aðsókn að fíknigeðdeild Landspítalans hefur aukist um allt að tíu prósent á árinu. Geðlæknir telur það til marks um vaxandi vímuefnavanda í þjóðfélaginu.

Strax fyrstu mánuðina eftir hrunið jókst álag á bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans töluvert eða um 20%. Fljótlega dró aftur úr komum en nú virðist sem að þeim sem leita á deildina sé að fjölga á ný.

Páll Matthíasson, geðlæknir og framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala-Háskólasjúkrahús, segir að þar á bæ hafi menn séð hægt vaxandi aðsókn undanfarið. Sérstaklega á bráðamóttökunni og göngudeildinni en einnig mjög hægt vaxandi aðsókn að almennum geðdeildum. Í rauninni sé það ekkert á við það sem þeir áttu von á. Það vekur hins vegar athygli að dálítið hraðari aukning er í aðsókn á fíknigeðdeildina og virðist vímuefnavandinn vera aukinn.

Á fíknigeðdeild Landspítala er rekin sérhæfð þjónusta fyrir einstaklinga þar sem geðraskanir og misnotkun vímuefna fara saman. Páll segir að fjölgun sjúklinga þar hafi verið þó nokkur eða á bilinu sjö til tíu prósent milli ára, núna þrjú ár í röð. Töluvert meiri aukning er á göngudeildinni þar eða sem nemur tuttugu til þrjátíu prósent.

Páll segir erfitt að segja til um af hverju álag á fíknigeðdeildina er að aukast. Margt bendi til þess að vímuefnavandinn sé vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Þegar aðstæður séu erfiðar þá leitar fólk jafnvel leiða til að flýja raunveruleikann og kannski sé þetta ein af leiðunum, það er að nota vímuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×