Innlent

Engir lyfjapennar á Íslandi - ofnæmissjúklingar uggandi

Engir lyfjapennar hafa fengist í apótekum í talsverðan tíma. Myndin er úr safni.
Engir lyfjapennar hafa fengist í apótekum í talsverðan tíma. Myndin er úr safni.
„Það kom röng sending til okkar sem skýrir þessa töf," segir Jón Ólafsson, Sölu- og markaðsstjóri lyfjaumboðsins Vistor, en lyfjapennar, sem innihalda adrenalín í sjálfvirku inndælingartæki, og eru ætlaðir til neyðarmeðferðar við bráðum ofnæmisviðbrögðum var ófáanlegur í apótekum á landinu í júní.

Takist sjúklingi ekki að gefa sér lyfið getur það haft lífshættulegar afleiðingar.

Það var kona, sem er með bráðaofnæmi, sem hafði samband við Vísi og vakti athygli á þessu. Hún benti á að það ylli henni talsverðum óþægindum að hafa ekki lyfjapennann og í raun setti það sumarfríið hennar í uppnám þar sem hún yrði að hafa lyfjapennann á sér öllum stundum.

„Það er auðvitað bagalegt þegar svona lagað kemur fyrir," segir Jón en þegar upp komst um mistökin þá var ný sending pöntuð umsvifalaust. Lyfið kom svo til landsins í síðustu viku. Þá þurfti að klára formlega pappírsvinnu að sögn Jóns, en henni er nú lokið.

Jón segir að fyrirtækið byrji því að dreifa fyrstu lyfjapennunum í apótek á morgun.

Konan sem Vísir ræddi við hefur verið án lyfjapenna síðan í lok maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×