Erlent

Myndar samsteypustjórn þrátt fyrir stórsigur

Sigurvegari kosninganna í Tælandi um helgina ætlar að mynda samsteypustjórn með fjórum minni flokkum þrátt fyrir að hafa náð meirihluta. Yingluck Shinawatra verður forsætisráðherra Taílands, fyrst kvenna, en flokkur hennar, Puea Thai, vann stórsigur í þingkosningunum í gær. Yingluck er systir fyrrverandi forsætisráðherra landsins Thaksin Shinawatra sem er í útlegð í Dubai en herinn steypti honum af stóli árið 2006 í skugga spillingarmála. Gagnrýnendur Yingluck segja hana aðeins lepp fyrir bróðir sinn en yfirmenn hersins hafa þó þegar lýst því yfir að þeir fallist á úrslit kosninganna.

Þrátt fyrir að hafa náð hreinum meirihluta í kosningunum í gær ætlar Yingluck að mynda stjórn með fjórum minni flokkum á tælenska þinginu. Í þakkarræðu sinni sagðist Yyngluck þeirrar skoðunar að fyrsta mál á dagskrá sé að sætta ólík sjónarmið í landsmálunum en miklar óeirðir blossuðu upp í landinu í fyrra þegar sló í brýnu á milli stuðningsmanna bróður hennar og yfirvalda í höfuðborginni Bangkok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×